Þýskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Methamphetamine hafi fundist við rannsókn á sýni sem svissneski landsliðsmarkvörðurinn Nikola Portner skilaði frá sér þegar hann fór í lyfjapróf fyrir nokkru síðan. Þýska lyfjafeftirlitið staðfesti fregnirnar í svari til Deutsche Presse-Agentur í dag.
Nýtt við meðferð ADHD
Methamphetamine er örvandi amfetamínlíkt lyf og er stundum notað ólöglega sem slíkt eða sem meðferð við ADHD og heitir þá t.d. Desoxyn. Það er hvorki notað hér á landi við ADHD né er það til sölu, samkvæmt upplýsingum sem handbolti.is fékk hjá þrautreyndum lyfjafræðingi.
Farinn í leyfi
Eins og handbolti.is sagði frá í gær kom niðurstaðan Portner í opna skjöldu. Hann sver af sér notkun ólöglegra lyfja. Portner er farinn í ótímabundið leyfi hjá félagsliði sínu, SC Magdeburg, sigurliði Meistaradeildar á síðustu leiktíð. Hann mun hvorki æfa né leika með liðinu meðan á leyfinu stendur. Félag segist standa við bakið á Portner og vinni með honum að því að fá botn í málið.
Á versta tíma
Fregnirnar koma á allra versta tíma fyrir SC Magdeburg. Portner er besti markvörður liðsins. Framundan er úrslitahelgi þýsku bikarkeppninnar á laugardag og sunnudag. Magdeburg er einnig í harðri keppni við Füchse Berlin auk þess að vera komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Magdeburg vann Meistaradeildina á síðasta ári.
Á rétt á frekari rannsókn
Portner hefur rétt á að svokallað B-sýni verði einnig rannsakað en reglan er sú þegar íþróttamenn gangast undir lyfjapróf þá er sýnið sem þeir skila af sér skipt í tvennt, í A- og B-sýni. A-sýnið er alltaf rannsakað. Ef ekkert óeðlilegt finnst við niðurstöðu A-sýnis er B-sýnið ekki rannsakað.
Þegar íþróttamenn eru kallaðir í lyfjaeftirlit ber þeim skylda til þess að láta vita af allri lyfjanotkun áður þeir skila af sér sýni. Ef það er ekki gert er lögleg lyfjanotun álitin vera ólögleg ef merki um lögleg lyf finnast í niðurstöðum rannsókna.