Örvhentu skytturnar Arnór Snær Óskarsson og Agnar Smári Jónsson hafa báðir skrifað undir framlengingu á sínum samningum sínum við lið nýkrýndra Coca Cola-bikarmeistara Vals.
Arnór Snær skrifar undir þriggja ára samning við Val sem gildir út tímabilið 2025. Arnóri Snær hefur vaxið mjög fiskur um hrygg á yfirstandandi leiktíð. Eftir sigur Vals í Coca Cola-bikarnum á laugardaginn var Arnór Snær mikilvægasti leikmaður úrslitahelgi bikarkeppninnar.
„Arnór hefur farið úr því að vera lykilmaður í yngri flokkum félagsins í að vera einn besti leikmaður meistaraflokks á nokkrum árum. Arnór hefur einnig getið af sér gott orð við þjálfun yngri flokka félagsins og er fyrirmyndar félagsmaður,“ segir í tilkynningu frá handknattleiksdeild Vals í dag.
Agnar Smári skrifaði undir tveggja ára samning við Val sem gildir til loka leiktíðar 2024.
„Agnar Smári hefur um árabil verið einn besti leikmaður deildarinnar og verið lykilmaður í titilbaráttu sinna liða og fór til að mynda á kostum þegar Valsmenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn á Ásvöllum í fyrra,“ segir ennfremur í tilkynningu handknattleiksdeildar Vals.