„Ég hef ekki lagt í vana minn að hafa ekki skoðun á dómurum eftir leiki. Mér finnst það ákveðinn ósiður að gagnrýna dómara strax eftir leiki þótt stundum langi mann að segja eitthvað,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla spurður út í dómgæsluna í viðureign Íslands og Ungverjalands. Afar skiptar skoðanir voru á frammistöðu Norður-Makedóníumannanna Dimitar Mitrevski og Blagojche Todorovski sem virtust óstyrkir og á tíðum ekki ráða vel við hlutverk sitt enda nýir á stóra sviðinu.
„Þegar allir spyrja mann út í dómgæsluna eftir leik þá er einhver vísbending um að eitthvað hafi betur mátt fara. Dómararnir voru vafalaust að gera sitt besta. Þeir eiga sína góðu daga og einnig lakari daga. Mistök voru eflaust gerð á báða bóga.
Ungverjar, rétt eins og við, eru örugglega einnig óánægðir með einhverja dóma í leiknum. Ég er fyrst og fremst ótrúlega glaður að sigurinn hafi fallið okkar megin. Það skipti öllu máli,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari eftir leikinn í Kristianstad Arena í gærkvöld þegar Ísland lagði Ungverjaland, 24:23, á Evrópumótinu í handknattleik karla.
EM karla 2026 – milliriðlar – úrslit, staðan, leiktímar
EM karla 2026 – úrslit, staðan og leiktímar
Landslið Íslands á EM 2026 – strákarnir okkar


