- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ósk Bjarka Más rættist

Bjarki Már Elísson ásamt samherjum í Lemgo. Mynd/Lemgo Lippe
- Auglýsing -

„Það er ótrúlega gaman að fá að koma heim og spila einn leik. Valur líka með frábært lið þannig þetta verða vonandi skemmtilegir leikir,“ sagði Bjarki Már Elísson, leikmaður þýsku bikarmeistaranna Lemgo við handbolta.is eftir að Lemgo dróst á móti Val í annarri umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik karla í gærmorgun.

„Þetta verður hrikalega skemmtilegt verkefni,“ sagði Bjarki ennfremur en fyrri viðureignin verður í Origohöll Valsmanna þriðjudaginn 21. september. Leikið verður ytra viku síðar. Samanlögð úrslit leikjanna tveggja skera úr um hvort liðið tekur sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.


Bjarki Már segir að það hafi lengi verið draumur sinn að mæta íslensku félagsliði í Evrópukeppni. Nú hefur draumurinn loksins ræst og framundan sé óvænt en stutt Íslandsferð.


„Ég er alla vega mjög spenntur. Ég bað fyrir þessu öll árin sem ég var í Berlín um að við fengjum íslenskt lið en það gerðist aldrei,“ sagði Bjarki Már léttur í bragði að vanda.


Bjarki Már verður í eldlínunni síðar í dag þegar flautað verður til leiks í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Mikill Íslendingaslagur verður á heimavelli Lemgo þegar MT Melsungen kemur í heimsókn. Með Melsungen leika þrír íslenskir handknattleiksmenn, Alexander Petersson, Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson auk þess sem Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, þjálfar lið Melsungen. Alexander og Elvar Örn gengu til liðs við Melsungen í sumar.

Síðast mættust Lemgo og Melsungen í úrslitum þýsku bikarkeppninnar í lok maí. Lemgo vann og vann bikarkeppnina í fyrsta sinn í tæp 20 ár.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -