Drammen lagði ØIF Arendal í norsku úrvalsdeildinni með sex marka mun á heimavelli í karlaflokki í kvöld, 32:26. Íslendingarnir hjá Drammen, Óskar Ólafsson og Viktor Petersen Norberg (sem er hálfur Íslendingur), létu til sín taka eins og þeirra var von og vísa. Þeir skoruðu þrjú mörk hvor.
Úrslitin koma e.t.v. einhverjum á óvart því ekki er langt um liðið síðan ØIF Arendal lagði meistara Elverum á þeirra heimavelli í fyrsta sinn í fimm ár í deildarleik. E.t.v. bendir þetta til að meiri samkeppni verði á toppnum í norsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en verið hefur undanfarin ár þegar Elverumliðið hefur borið höfuð og herðar yfir andstæðinga sína.
Runar Sandefjord, Kolstad og Drammen eru taplaus eftir að hafa leikið tvo leiki hvert. Elverum er einnig með fjögur stig en á þrjá leiki að baki. Halden og ØIF Arendal er næst með þrjú stig hvort. Halden að loknum tveimur viðureignum en ØIF Arendal eftir þrjá leiki.
- Auglýsing -