Össur Haraldsson var óstöðvandi þegar Haukar innsigluðu sæti í átta liða úrslitum Poweradebikarsins í handknattleik karla með átta marka sigri á ÍBV á Ásvöllum í dag, 37:29, eftir að hafa verið marki yfir í hálfleik, 15:14.
Össur skoraði 13 mörk í 14 skotum og fengu leikmenn ÍBV ekki við neitt ráðið. Ekkert markanna skoraði Össur úr vítakasti. ÍBV, sem lék til úrslita í bikarkeppninni fyrr á þessu ári gegn Val og á afar góða sögu í keppninni á síðustu árum, er þar með úr leik og getur alfarið einbeitt sér að Olísdeildinni.
Haukum heldur áfram að vaxa ásmegin á undanförnum vikum eftir að hafa náð sér upp úr lægð sem þeir voru í á tímabili.
Haukar voru mikið öflugri í síðari hálfleik í viðureigninni í dag. Sóknarleikurinn var afar góður og að nokkru leyti framhald af viðureigninni við Gróttu á dögunum.
Andri Fannar Elísson fékk rautt spjald á 51. mínútu þegar vítakast hans fór í höfuð Pavel Miskevich markvarðar ÍBV. Ofsafegin viðbrögð Miskevich urði til þess að hann fékk bæði rautt spjald og blátt.
Mörk Hauka: Össur Haraldsson 13, Skarphéðinn Ívar Einarsson 6, Hergeir Grímsson 4, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 4, Birkir Snær Steinsson 4, Andri Fannar Elísson 3/2, Jakob Aronsson 1, Tjörvi Þorgeirsson 1, Þráinn Orri Jónsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 11/1, 27,5%.
Mörk ÍBV: Sigtryggur Daði Rúnarsson 6/1, Kári Kristján Kristjánsson 6, Andri Erlingsson 5/1, Gauti Gunnarsson 3, Sveinn Jose Rivera 2, Elís Þór Aðalsteinsson 2, Daniel Esteves Vieira 2, Marino Gabrieri 1, Kristófer Ísak Bárðarson 1, Nökkvi Snær Óðinsson 1.
Varin skot: Pavel Miskevich 10/1, 35,7% – Petar Jokanovic 1, 5%.
Tölfræði HBStatz.
Poweradebikar karla – fréttasíða.