Fram vann Aftureldingu í Olísdeild karla í handknattleik í Lambhagahöllinni í kvöld, 34:32, eftir að hafa verið sjö mörkum undir í hálfleik, 20:13. Hálfleikarnir voru eins og svart og hvítt hjá báðum liðum. Ekki stóð steinn yfir steini hjá Aftureldingu í síðari hálfleik eftir frábæran fyrri hálfleik. Liðið molnaði niður í síðari hálfleik á sama tíma og táningaliði Fram óx ásmegin stig af stigi.
Sigurinn færir Framara upp að hlið FH í efsta sæti Olísdeildar karla. Hvort lið hefur 23 stig en FH á leik til góða. Afturelding missti af gullnu tækifæri til þess að tylla sér á toppinn og því áfram stigi á eftir forystuliðunum tveimur.
Allt lék í lyndi hjá Aftureldingu allan fyrri hálfleikinn. Sóknarleikurinn gekk eins og í sögu og varnarleikur og markvarsla var eins og best var á kosið. Framarar náðu ekki upp sínum góða samleik og varnarleikur og markvarsla var ekki upp á marga fiska.
Pólskipti í síðari hálfleik
Pólskipti urðu í síðari hálfleik. Gunnar Magnússon tók leikhlé eftir hálfa níundu mínútu þegar forskotið var komið niður í tvö mörk. Báráttugleði var komin í varnarmenn Fram sem virðast hafa vaknað upp við vondan draum í hálfleik. Breki Hrafn Árnason lokað markinu. Varnarleikur Aftureldingar var ekki sá sami og í fyrri hálfleik. Framarar skoruðu úr hverri sókn. Ungi piltarnir Reynir Stefánsson, Max Emil Stenlund og Marel Baldvinsson léku eins og þeir væru búnir að vera í áratug í meistaraflokki.
Slegnir út af laginu
Aftureldingarmenn voru gjörsamlega slegnir út af laginu. Sama hvað þeir reyndu, fátt gekk upp. Framarar léku við hvern sinn fingur og eftir því sem stemningin og leikgleðin jókst þá sóttu þeir í sig veðrið. Eftir að Fram komst yfir, 27:26, 12 mínútum fyrir leikslok þá gáfu þeir ekki þumlung eftir og unnu mikinn baráttusigur.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Fram: Reynir Þór Stefánsson 9, Marel Baldvinsson 6, Erlendur Guðmundsson 4, Max Emil Stenlund 3, Ívar Logi Styrmisson 3/3, Tryggvi Garðar Jónsson 2, Dagur Fannar Möller 2, Eiður Rafn Valsson 2, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 1, Theodór Sigurðsson 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 16, 35,3% – Arnór Máni Daðason 2, 16,7%.
Mörk Aftureldingar: Kristján Ottó Hjálmsson 7, Ihor Kopyshynskyi 6, Birgir Steinn Jónsson 5/1, Blær Hinriksson 4, Árni Bragi Eyjólfsson 3, Þorvaldur Tryggvason 2, Stefán Magni Hjartarson 2, Harri Halldórsson 2, Hallur Arason 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 15, 34,9% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 0.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.