Evrópumeistarar SC Magdeburg halda yfirburðastöðu sinni í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Í kvöld vann Magdeburg Eisenach, 30:25, í Eisenach og fer með fimm stiga forskot í efsta sæti deildarinnar inn í hlé sem stendur yfir fram í byrjun febrúar.
Ómar Ingi Magnússon skoraði sjö mörk í átta skotum fyrir Magdeburg og var markahæstur Íslendinganna þriggja. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fjögur mörk og gaf níu stoðsendingar. Elvar Örn Jónsson skoraði ekki mark að þessu sinni.
SC Magdeburg hefur átt hreint ótrúlegt ár. Alls eru leikirnir 65 og töpin aðeins fjögur, þar af eitt á þessari leiktíð og það var í undanúrslitaleik heimsmeistaramóts félagsliða gegn One Veszprém í haust. Liðið er haustmeistari í Þýskalandi eins og um áramótin 2021/2022 og 2023/2024. Í bæði skipti vann liðið þýska meistaratitilinn vorið eftir.
Elliði Snær var öflugur
Gummersbach situr í sjötta sæti deildarinnar undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar. Gummersbach vann HSV Hamburg, 33:27, á heimavelli í dag.
Elliði Snær Viðarsson átti stórleik í sókninni og skoraði sjö mörk af línunni en hann virðist hafa eignað sér byrjunarliðsstöðuna.
Teitur Örn Einarsson skoraði tvisvar úr hægra horninu fyrir Gummersbach auk þess að vera afar öflugur í bakverðinum í frábærri vörn Gummersbach-liðsins.
Einar Þorsteinn lék á línunni
Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði fjögur mörk af línunni fyrir HSV Hamburg. Hann spilaði sem línumaður þegar Hamburg fór í 7 á 6 í sókninni. Einar Þorsteinn var auk þess mjög sterkur í miðri vörn Hamborgarliðsins.
100 mörk og 102 stoðsendingar
Haukur Þrastarson skoraði fimm mörk og gaf átta stoðsendingar í fjögurra marka sigri Rhein-Neckar Löwen, 30:26, í Leipzig. Skotnýting Hauks hefur oft verið betri en hann þurfti 13 skot til að skora mörkin fimm. Stoðsendingar hans eru hins vegar nánast gulls ígildi og eru alls orðnar 102 á tímabilinu. Haukur er efstur í deildinni í þeim þætti leiksins eins og handbolti.is sagði frá á dögunum. Mörkin eru 100 og því hefur Haukur náð áhugaverðri tvennu, þ.e. 100 mörkum og 102 stoðsendingum á fyrri helmingi fyrstu leiktíðar sinnar í þýska handboltanum.
Blær Hinriksson skoraði ekki mark fyrir Leipzig í leiknum. Liðið rekur lestina í deildinni eins og fyrri daginn.
Ýmir Örn Gíslason fyrirliði Göppingen skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu þegar liðið tapaði með 13 marka mun fyrir Füchse Berlin, 42:29, í Berlín. Eftir jafnan fyrri hálfleik þá tóku Mathias Gidsel og félagar öll ráð á leikvellinum í síðari hálfleik.
Hannover-Burgdorf gerði jafntefli á heimavelli við GWD Minden, 26:26. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.
Staðan í þýsku 1. deildinni:



