ÍBV komst upp í annað sæti Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld með fjögurra marka sigri á Stjörnunni, 22:18, í TM-höllinni í Garðabæ í miklum sveifluleik. ÍBV hefur þar með 18 stig eftir 11 leiki og er stigi á eftir Val. Stjarnan er með 16 stig í þriðja sæti. ÍBV hefur nú unnið átta leiki í röð í deildinni og í bikarkeppninnin.
Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 9:9. ÍBV skoraði sjö fyrstu mörk leiksins. Stærstan þátt í því átti Marta Wawrzykowska sem varði allt hvað af tók í marki ÍBV. Elísabet Gunnarsdóttir skoraði fyrsta mark Stjörnunnar eftir 11 mínútur og 55 sekúndur. Jafnt og þétt vann Stjarnan upp forskotið. ÍBV tapaði áttunum í sókninni og skoraði aðeins tvö mörk á síðustu 17 mínútum fyrri hálfleiks.
Stjarnan fór hroðalega af stað í síðari hálfleik. Hver sóknin á fætur annarri rann út í sandinn. ÍBV gekk á lagið og skoraði átta fyrstu mörkin! Eva Björk Davíðsdóttir skoraði loksins fyrir Stjörnuna eftir rúmar 11 mínútur í síðari hálfleik úr vítakasti. Stjarnan náði sér aldrei á strik og þótt ÍBV hafi ekki leikið sinn besta leik síðasta korterið þá dugði það til þess að vinna leikinn í uppgjörinu um annað sætið.
Marta Wawrzykowska markvörður ÍBV var besti maður vallarins.
Mörk Stjörnunnar: Helena Rut Örvarsdóttir 8, Eva Björk Davíðsdóttir 3/2, Anna Karen Hansdóttir 2, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 2, Britney Cots 1, Elísabet Gunnarsdóttir 1, Lena Margrét Valdimarsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 10, 31,3%.
Mörk ÍBV: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 6, Elísa Elíasdóttir 5, Sunna Jónsdóttir 3, Birna Berg Haraldsdóttir 3, Ingibjørg Olsen 3, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 2.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 20/1, 52,6%.
Staðan í Olísdeild kvenna.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.