- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ótrúlega stoltur af liðinu

Gunnar Gunnarsson, þjálfari kvennaliðs Hauka. Mynd/Haukar
- Auglýsing -

„Ég er ótrúlega stoltur af því hvernig liðið höndlaði þennan leik,“ sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka eftir sigur, 30:27, á ÍBV í Vestmannaeyjum í gærkvöld í Olísdeild kvenna í handknattleik


„Við áttum mjög slakan síðasta leik á móti Stjörnunni í síðustu umferð. Við fórum vel í gegnum þann leik og ekki var verkefnið auðveldara að þessu sinni, á útivelli á móti firna sterku liði ÍBV. Byrjunin var ekki alveg eins og við höfðum lagt upp með og við vorum undir, 5:2, eftir fimm mínútur. Þá ákváðum við Díana [Guðjónsdóttir þjálfari] að taka leikhlé og fara aðeins yfir það sem við vorum búin að ákveða að gera. Stelpurnar svöruðu þessu með frábærum leik sem skilaði okkur þriggja marka forystu í lok fyrri hálfleiks, 18:15,“ sagði Gunnar ennfremur.


Aðeins hallaði undan fæti hjá Haukum um stund þegar leið á síðari hálfleikinn og ÍBV komst m.a. yfir. Gunnar viðurkennir að þá hafi leikurinn geta farið á hvorn veginn sem var.

Höfðu trú á sér

„Það fór aðeins um mig þegar við lendum undir, 26:25, en þá sýndu stelpurnar að þær hafa trú á sér og liðinu. Þær sneru við taflinu og tókst að vinna með þriggja marka mun og ljúka leiknum sem eitt lið,“ sagði Gunnar.

Spurður hver hafi verið lykillinn að þessum sigri sem mörgum hafi e.t.v. þótt óvæntur, svaraði Gunnar. „Við náðum að fá marga leikmenn inn í leikinn. Ungir leikmenn komu inn með ákefð og áræðni á meðan þeir eldri miðluðu af sinni reynslu,“ sagði Gunnar sem ítrekar að þótt sigurinn hafi verið sætur í Eyjum megi alls ekki gleyma sér.

„Við ætlum ekki að missa okkur í gleðinni. Næst er æfing á morgun [í dag] klukkan átján og síðan er leikur við Val á laugardaginn.
Vissuleg frábær sigur hjá okkur á móti frábæru liði á mjög erfiðum útivelli og liðið á svo sannarlega hrós skilið. En við verðum að ná okkur niður á jörðina vera klár í næsta verkefni,“ sagði Gunnar Gunnarsson, hinn þrautreyndi þjálfari kvennaliðs Hauka sem komst upp í sjötta sæti deildarinnar með sigrinum í Eyjum í gærkvöld, aðeins stigi á eftir ÍBV.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -