„Það er ótrúlega súrt að tapa því við lékum fínasta leik í dag,“ sagði Óðinn Þór Ríkharðsson markahæsti leikmaður KA með níu mörk í úrslitaleiknum við Val í Coca Cola-bikarnum þegar handbolti.is hitti hann rétt eftir að flautað var til leiksloka á Ásvöllum í kvöld að loknum stórskemmilegum úrslitaleik KA og Vals þar sem KA tapaði með fjögurra marka mun, 36:32.
Áttum rísaséns
„Okkur vantaði herslumun upp á að vinna. Því miður þá misstum við frumkvæðið þegar kom fram í síðari hálfleik eftir að hafa verið með fulla stjórn á leiknum í fyrri hálfleik og framan af þeim síðari. Þegar við byrjuðum að elta þá reyndi enn meira á okkur. Það tekur á að elta jafn öflugt lið og Valur hefur á að skipa. En það var risaséns hjá okkur að vinna leikinn að þessu sinni gegn besta liði landsins. Það var ljóst að við þurftum að eiga frábæran leik til þess að vinna, okkur tókst að leika frábæran leik en það nægði því miður ekki. Heppni, óheppni, herslumunur og allt það,“ sagði Óðinn Þór.
Vorum með tvo fyrir einn og mikið háværari
Óðinn Þór sagði frammistöðu stuðningsmanna KA hafa verið magnaða. „Það heyrðist ekki Valur úr stúkunni, bara KA. Ekki nóg með að það voru tveir KA menn í stúkunni fyrir hvern einn Valsmann heldur voru okkar stuðningsmenn einnig háværari. Hreint ótrúlegt að sjá þetta og verða vitni að þessum frábæra hóp sem studdi við bakið á okkur frá upphafi til enda,“ sagði Óðinn Þór Ríkharðsson, leikmaður KA í samtali við handbolta.is eftir tapið í úrslitaleiknum í kvöld.