Ólánið er með ólíkindum hjá leikmönnum landsliðs Slóveníu sem nú býr sig undir þátttöku á Evrópumótinu í handknattleik. Ekkert landslið er með eins langan lista af óleikfærum leikmönnum vegna meiðsla og enn lengdist meiðslalistinn í gærkvöld þegar Aleks Vlah tognaði á læri í viðureign Slóvena og Kúveitbúa í vináttuleik í Trebnje í Slóveníu. Uros Zorman landsliðsþjálfari er skiljanlega með böggum hildar vegna ástandsins enda fækkar stöðugt þeim leikmönnum sem hann hefur úr að spila.
Íslenska landsliðið mætir Slóvenum í vináttuleik skammt utan við París síðdegis á föstudaginn. Einnig er ekki útilokað að liðin mætist aftur í milliriðlakeppni EM í Malmö síðar í mánuðinum.
Vlah er níundi leikmaður slóvenska landsliðsins sem hefur helst úr lestinni á síðustu dögum. Hinir eru Nejc Cehte, Blaž Blagotinšek, Borut Mačkovšek, Miha Zarabec, Matic Grošelj, Tadej Kljun, Mitja Janc og Jaka Malus.
Þess utan voru Nik Henigman og Matic Suholežnik ekki með í leiknum í gærkvöld vegna eymsla í hnjám. Þar er ekki öll sagan sögð því Domen Novak er tognaður og Slatinek Jovičič kennir eymsla í hásin.
Veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið
Zorman landsliðsþjálfari Slóvena á sannarlega ekki sjö dagana sæla um þessar mundir en óðum fækkar þeim leikmönnum á 35 manna listanum sem hann getur bætt við í æfingahóp sinn. Vöngum er velt yfir hvort hann geti fengið undanþágu til þess að velja leikmenn sem er ekki að finna á 35 manna listanum sem skráður er hjá Handknattleikssambandi Evrópu, þó ekki nema væri til að fá leikstjórnanda inn í liðið en þeim hefur farið hratt fækkandi.
Slóvenar leika í D-riðli á EM ásamt Færeyingum, Svartfellingum og landsliði Sviss.
EM karla 2026 – leikdagar, leikstaðir, leiktímar



