Óttast er að spænski landsliðsmarkvörðurinn Gonzalo Pérez de Vargas hafi leikið sinn síðasta leik fyrir Evrópumeistara Barcelona eftir að hann meiddist í viðureign Barcelona og Bidasoa Irún í spænsku úrvalsdeildinni í gær. Grunur er uppi um að de Vargás hafi slitið krossband í vinstra hné.
De Vargas fer í myndatöku og læknisskoðun á morgun. Reynist grunurinn vera réttur verður de Vargas væntanlega frá keppni næsta árið og þar með gæti þátttaka hans með spænska landsliðinu á EM á næsta ári verið í hættu.
𝐂𝐨𝐦𝐮𝐧𝐢𝐜𝐚𝐭 𝐦𝐞̀𝐝𝐢𝐜 ❗️
— Barça Handbol (@FCBhandbol) February 15, 2025
Gonzalo Pérez de Vargas ha patit durant el Barça-Bidasoa una lesió lligamentosa al genoll esquerre. El porter se sotmetrà dilluns a proves mèdiques per a conèixer l’abast exacte de la lesió. pic.twitter.com/dNBnl84Nqg
De Vargas, sem varð 34 ára gamall 10. janúar, hefur fyrir löngu síðan samið við þýska liðið THW Kiel frá og með komandi sumri eftir að hafa leikið með Barcelona frá 2009.
Nielsen er meiddur
Danski landsliðsmarkvörðurinn Emil Nielsen meiddist í leik með Barcelona gegn Aalborg Håndbold í Meistaradeildinni á miðvikudaginn. Hann var þar af leiðandi ekki með Barcelona í viðureigninni við Bidasoa Irún. Markvörður unglingaliðs Barcelona, Filip Saric, hljóp í skarðið þegar de Vargas meiddist í leiknum og stóð sig vel.
Filip er sonur Daniel Saric sem lengi lék með Barcelona en varð hvað þekktastur fyrir að gerast ríkisborgari í Katar og vera landsliðsmarkvörður Arabíulandsins um árabil með frábærum árangri.
Ekki er reiknað með Nielsen verði lengi frá keppni.