Mörgum að óvörum þá sótti Guif tvö stig í greipar IFK Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla í kvöld með eins marks sigri, 30:29. Richard Äkerman tryggði liðinu frá Eskilstuna sigurinn á síðustu andartökum leiksins. IFK var þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:14.
Þetta var fyrsta tap Kristianstad í deildinni á leiktíðinni. Liðið er í efsta sæti eftir sem áður með 14 stig eftir átta leiki. Guif, sem ekki hefur leikið vel upp á síðkastið, situr í áttunda sæti með átta stig og á níu leiki að baki.
Teitur Örn Einarsson skoraði sjö mörk fyrir Kristianstad og átti tvær stoðsendingar. Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði fjórum sinnum og átti einnig tvær stoðsendingar. Gamall samherji Ólafs úr FH, Daníel Freyr Andrésson, lék hluta leiksins í marki Guif og varði sex skot á þeim tíma sem gerði 22 % hlutfallsmarkvörslu.
Sneru vörn í sókn
Aron Dagur Pálsson og samherjar í Alingsås náðu að vinna sig úr erfiðri stöðu og ná í tvö stig í Helsingborg. Alingsås-liðið átti lengi vel undir högg að sækja að þessu sinni en tókst að snúa vörn í sókn þegar á leið og vinna með eins marks mun, 25:24, og sitja þar með áfram í fjórða sæti með 11 stig eftir átta leiki. Liðið á leik til góða á Ystads og Malmö sem eru með 13 og 12 stig í öðru og þriðja sæti.
Aron Dagur skoraði eitt mark í kvöld og átti eina stoðsendingu.