Elmar Erlingsson og liðsfélagar í 2. deildarliðinu Nordhorn-Lingen gerðu sér lítið fyrir og lögðu 1. deildarliðið HC Erlangen, 35:32, á heimavelli í 16-liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í handknattleik í kvöld.
Elmar skoraði sex mörk fyrir Nordhorn-Lingen og var næst markahæstur í fremur óvæntum sigri því Erlangen hefur á tíðum verið öflugt á leiktíðinni og náði m.a. jafntefli við Magdeburg á dögunum.
Andri Már Rúnarsson skoraði sex mörk fyrir Erlangen. Viggó Kristjánsson var fjarverandi vegna meiðsla eins og í tveimur leikjum á undan.
Nordhorn var marki yfir í hálfleik. Síðari hálfleikur var jafn og spennandi. Heimamenn voru sterkari þegar kom fram á síðustu tíu mínúturnar. Þeir komust yfir 31:29, og gáfu sitt aldrei eftir þar til yfirlauk.
TV Großwallstadt komst einnig í átta liða úrslit í kvöld. Liðið lagði Bietigheim, 35:34, á heimavelli.