- Auglýsing -
Samningur Erlings Richardssonar um þjálfun hollenska karlalandsliðsins í handknattleik rennur út í júní. Erlingur sagði við handbolta.is í morgun að enn hafi ekki átt sér stað viðræður á milli sín og hollenska handknattleikssambandsins um hvað taki við þegar núverandi samningur rennur út. Erlingur hefur þjálfað hollenska landsliðið í fimm ár og leitt uppbyggingu þess.
Hollenska landsiðið sló í gegn á Evrópumótinu sem fram fór í síðasta mánuði og hafnaði í tíunda sæti sem er langbesti árangur þess á stórmóti frá upphafi. M.a. lögðu Hollendingar landslið Ungverja, heimamanna, að viðstöddum 20 þúsund áhorfendum MVM Arena í upphafsleik riðlakeppni mótsins og komst áfram í milliriðlakeppnina. Var þetta í fyrsta sinn sem hollenska karlalandsliðið nær svo langt á stórmóti í karlaflokki en Hollendingar voru nú með í annað sinn í lokakeppni EM. Fyrsta skiptið var einnig undir stjórn Erlings fyrir tveimur árum.
Íslenska landsliðið vann hollenska landsliðið með eins marks mun, 29:28, í hörkuleik í annarri umferð riðlakeppni mótsins.
Framundan hjá hollenska landsliðinu eru í apríl tveir leikir við annað hvort Sviss eða Portúgal í umspili um HM sæti. Hvort andstæðingurinn verður Sviss eða Portúgal kemur í ljós eftir miðjan mars þegar uppgjöri landsliðanna verður lokið á fyrsta stigi umspilsins. Erlingur verður alltént við stjórnvölin í leikjunum í apríl hvað sem framtíðin ber í skauti sér.
Erlingur þjálfar einnig karlalið ÍBV. Eftir því sem næst verður komist rennur samningur hans við ÍBV einnig út í vor.