Óvíst er að íslenska landsliðið í handknattleik fái mikla hjálp frá danska landsliðinu til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í handknattleik. Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari Dana, segir í samtali við Jyllans-Posten að álaginu verði dreift á milli leikmanna í leiknum við Frakka annað kvöld. Til greina komi að lykilmenn verði að mestu hvíldir enda skiptir undanúrslitaleikurinn á föstudaginn danska landsliðið meira máli en viðureignin við Frakka í lokaumferð milliriðlakeppninnar annað kvöld.
Danir eru þegar öruggir um sæti í undanúrslitum Evrópumótsins sem fram fara á föstudaginn. Frakkar og Íslendingar stefna á að fylgja Dönum í undanúrslit en víst er að færri komast að en vilja.
Löng bið
Íslenska landsliðið leikur við Svartfellinga klukkan 14.30 á morgun og þarf á sigri að halda en einnig treysta á að Danir vinni Frakka í leik sem hefst klukkan 19.30. Þar með yrðu Frakkar og Íslendingar jafnir að stigum. Ísland færi áfram á sigrinum góða á laugardaginn var, 29:21. Vinni Frakkar Dani eða að leiknum ljúki með jafntefli tekur franska landsliðið sæti í undanúrslitum ásamt Dönum.
Allir í toppstandi á föstudag
„Okkar ætlan er að leika vel á miðvikudaginn en megin markmiðið er að vera með alla leikmenn í toppstandi á föstudaginn í undanúrslitum. Það skiptir okkur mestu máli,“ sagði Jackobsen sem ætlar sér vitanlega að leika til úrslita og vinna Evrópumótið eftir að hafa unnið gullverðlaun með danska landsliðinu á tveimur undangengnum heimsmeistaramótum.
„Ég hvíli einhverja leikmenn á miðvikudaginn. Hverjir það verða kemur í ljós,“ sagði Jacobsen.
Hverjir fara áfram úr milliriðli tvö?
Í milliriðli tvö sem leikinn er í Bratislava í Slóvakíu er svipað upp á teningnum. Norðmenn, Svíar og Spánverjar eru í þremur efstu sætunum fyrir lokaumferðina í dag. Norðmenn eiga sæti sæti í undanúrslitum víst en Spánverjar og Svíar standa í svipuðu sporum og Íslendingar og Frakkar. Spánn leikur við Pólland í dag í kl. 14.30. Noregur og Svíþjóð eigast við kl. 19.30.