„Ég fæddist á Íslandi en flutti mánaðagömul til Noregs og hefur átt þar heima síðan,” sagði nýjasta landsliðskona Íslands í handknattleik, Dana Björg Guðmundsdóttir leikmaður Volda í Noregi, þegar handbolti.is hitti Dönu að máli og forvitnaðist aðeins meira um hana.
Móðir Dönu Bjargar heitir Inga Steingrímsdóttir og faðirinn Guðmundur Bragason. Dana á tvö systkini, Andri Snær og Arna Sif, sem eru eldri. Andri Snær hefur þrisvar sinnum keppt fyrir Ísland í Motocross of Nations. Eftir því sem fram kemur í grein á mbl.is í maí 2022 þá eru Inga og Guðmundur landsþekkt vaxtarræktarfólk á Íslandi frá öldinni sem leið.
Skoraði í fyrsta leiknum
Dana Björg lék sinn fyrsta A-landsleik í gærkvöld gegn Póllandi. Hún var inni á vellinum síðustu tíu mínúturnar og skoraði eitt mark í sex marka sigri Íslands, 30:24.
Samdi við Volda 2022
Dana Björg, sem er 22 ára gömul, er alin upp í nágrenni Drammen en flutti til sem er smábær í Suðurmæri á Vestlandinu þegar hún gekk til liðs við Volda Handball sumarið 2022. Liðið lék þá í úrvalsdeildinni en er nú í 1. deildinni og situr reyndar í efsta sæti ásamt Fjellhammer. Dana Björg hefur frá fyrsta leik verið ein af aðsópmestu markaskorurum Volda-liðsins. Samningur hennar við Volda rennur út næsta sumar. Óvíst er hvað tekur við.
Elti vinkonurnar
„Ég byrjaði ekki í handbolta fyrr en ég var 11 ára gömul. Fyrst var í ég í dansi og prófaði reyndar fleiri íþróttagreinar. Allar vinkonur mínar voru í handbolta svo ég elti þær á æfingar. Hér er ég ellefu árum síðar,” sagði Dana Björg glöð í bragði enda segir hún ákveðinn draum hafa ræst þegar hún var valin í landsliðið. Hún hafði reyndar æft með yngri landsliðum Noregs en aldrei leikið landsleik.
Allir eiga sér draum
„Allir sem æfa handbolta eiga sér þann draum að leika fyrir landslið. Ég átti hinsvegar ekkert sérstaklega von á því að það kæmi að því. Þess vegna er ég mjög ánægð að vera í þessum sporum í dag,“ sagði Dana Björg sem leikur í vinstra horni.
Reiknaði með andlátsfrétt
Spurð hver viðbrögðin hafi verið þegar Arnar Pétursson hafði samband við hana hló Dana Björg við og sagði Arnar ekki hafa haft samband beint við sig.
„Hann hringdi í pabba minn. Pabbi sendi mér skilaboð um að hringja í sig strax og ég væri búin á æfingu. Ég hélt að einhver í fjölskyldunni hefði dáið af því að hann sagði ekki hvað erindi hann ætti við mig í slíku hasti. Í stað þess að heyra dánarfregn þá sagði hann mér að ég hafi verið valin í íslenska landsliðið. Arnar landsliðsþjálfari hafði hringt í hann með þessar skemmtilegu fréttir og að ég þyrfti að svara fyrir ákveðinn tíma hvort ég kæmi eða ekki. Ég svaraði að sjálfsögðu já. Þetta gerðist allt mjög hratt,“ sagði Dana Björg.
Tek þeim tækifærum sem gefast
Dana Björg segist hafa fengið mjög góðar móttökur hjá konunum í landsliðinu, þjálfurum og starfsmönnum landsliðsins. Hún kann vel við sig í hópnum eftir æfinganar í vikunni.
„Ég tek svo þeim tækifærum sem mér bjóðast í leikjunum tveimur sem eru framundan. Ég geri mér grein fyrir að Perla Ruth er mjög góð og hefur verið árum saman í landsliðinu. Við sjáum til. Þetta hefur að minnsta kosti verið skemmtilegur tími,“ sagði Dana Björg Guðmundsdóttir nýjasta landsliðskona Íslands í handknattleik í samtali við handbolta.is.
Myndaveisla: Ísland – Pólland, 30:24 – Gleði og gaman