Valsmenn leggja vart frá sér pennann þessa daga og eru í óða önn að endurnýja og framlengja samninga við leikmenn kvennaliðs félagsins. Í gær skrifuðu Elín Rósa Magnúsdóttir og Þórey Anna Ásgeirsdóttir undir framlengingu á samningum og í dag var það tilkynnt að Andrea Gunnlaugsdóttir og Ásdís Þóra Ágústsdóttir hafi gert slíkt hið sama.
Andrea og Ásdís Þóra hafa, líkt og Elín Rósa og Þórey Anna, framlengt samninga sína við Val út tímabilið 2024. Báðar eru þær lykilmenn í 3. flokki félagsins ásamt U-19 ára landsliði Íslands, eins og kemur fram í tilkynningu frá Val.
Andrea spilaði 13 leiki fyrir félagið í Olísdeildinni í fyrra og var með tæplega 40% markvörslu í þeim leikjum. Andrea hefur bæði verið valin í hópinn með A- og B-landsliðinu undir stjórn Arnars Péturssonar, landsliðsþjálfara, og er einn efnilegasti markvörður landsins.
Ásdís Þóra hefur verið lykilmaður í sigursælum yngri flokkum Vals undanfarin ár ásamt því að vera valin efnilegasti leikmaður félagsins árið 2019. Ásdís er einnig burðarás í U-19 ára liði Íslands og var valin í úrvalslið Evrópumótsins í fyrra þar sem landsliðið náði eftirtektarverðum árangri. Ásdís Þóra svo valin í B-landsliðshóp í sumar eftir góða spilamennsku í Olísdeildinni. Báðar urðu þær deildar- og bikarmeistarar með 3. flokki í vor.