Bandaríska söngkonan Pink lýsir yfir stuðningi við norska strandhandboltalandsliðið í baráttu þess við Handknattleikssamband Evrópu, EHF, í slagnum um bíkinibuxurnar. Pink skrifar í færslu á Twitter að hún sé stolt af norska liðinu og standi þétt að baki þess. Hún býðst til þess að greiða sektina sem landsliðið fékk fyrir að leika í stuttbuxum í stað bíkinibuxna.
I’m VERY proud of the Norwegian female beach handball team FOR PROTESTING THE VERY SEXIST RULES ABOUT THEIR “uniform”. The European handball federation SHOULD BE FINED FOR SEXISM. Good on ya, ladies. I’ll be happy to pay your fines for you. Keep it up.
— P!nk (@Pink) July 25, 2021
Eins og komið hefur fram á handbolti.is þá hundsaði norska kvennalandsliðið í strandhandbolta reglur um keppnisbuxur þegar það lék um bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Varna í Búlgaríu á dögunum. Í stað bíkinibuxna mætti liðið til leiks í stuttbuxum. Handknattleikssamband Evrópu sektaði norska landsliðið um 1.500 evrur, um 220 þúsund krónur, fyrir vikið.
Nokkur evrópsk handknattleikssambönd hafa lýst yfir stuðningi við það norska og landsliðið. EHF hefur greint frá því að til standi að endurskoða reglur um klæðnað keppenda. Verður það gert í samvinnu við Alþjóða handknattleikssambandið þar sem um samræmdar reglur er að ræða.