Ísland vann öruggan sigur á Póllandi, 31:23, í annarri umferð F-riðils Evrópumóts karla í handknattleik í Kristianstad Arena í Kristianstad í Svíþjóð í kvöld. Með sigrinum tryggði Ísland sér sæti í milliriðli, sem leikinn verður í Malmö í Svíþjóð. Reyndar með þeim fyrirvara sagt að Ítalir vinni ekki Ungverja í síðari leik F-riðils í kvöld.
Leikirnir í milliriðli fara fram dagana 23., 25., 27. og 28. Janúar. Fyrst mætir Ísland liði Ungverjalands í lokaumferð F-riðils á þriðjudagskvöld þar sem kemur í ljós hvort Ísland tekur með sér tvö stig, eitt eða ekkert í milliriðil.
Leikurinn var hálfgerður barningur af hálfu íslenska landsliðsins allan fyrri hálfleikinn. Þrátt fyrir að möguleikar væru fyrir hendi til að hrista stóra og sterka Pólverja af sér þá tókst það ekki fyrr en á allra síðustu mínútum. Sóknarleikurinn gekk ekki sem skildi. Pólverjar sóttu langt út á móti íslensku sóknarmönnunum, boltar töpuðust og opin færi fóru forgörðum. Það var ekki fyrr en Haukur Þrastarson kom inn á völlinn á 21. mínútu sem aðeins lifnaði yfir sóknarleik íslenska liðsins. Haukur skoraði tvö mörk, vann vítakast, átti stoðsendingu sem skilaði marki og vann boltann einu sinni í vörninni. Frammistaða hans lagði grunn að þriggja marka forskoti í hálfleik, 13:10.
Sóknarleikur Pólverja var hins vegar ekki burðugur, 10 mörk í fyrri hálfleik segja meira en mörg orð í þeim efnum.
Íslenska liðið gerði út um leikinn á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks og þegar ríflega 9 mínútur voru liðnar af hálfleiknum tók pólski þjálfarinn annað leikhlé sitt á nokkrum mínútum. Munurinn var kominn upp í 10 mörk og hafði meira að segja aukist meðan pólska liðið var manni fleira.
Íslenska hélt í horfinu það sem eftir var leiksins, munurinn sveiflaðist frá átta og upp í 10 mörk.
Haukur kom með skemmtilega innkomu í leikinn og hjó á ákveðna hnúta sem voru á sóknarleiknum. Viggó Kristjánsson var mjög góður í síðari hálfleik eins og Orri Freyr Þorkelsson. Ýmir Örn Gíslason, Elliði Snær Viðarsson og Elvar Örn Jónsson stóðu að vanda í ströngu í vörninni ásamt Arnari Frey Arnarssyni.
Mörk Íslands: Orri Freyr Þorkelsson 6, Ómar Ingi Magnússon 5/4, Elliði Snær Viðarsson 5, Haukur Þrastarson 5, Viggó Kristjánsson 3, Elvar Örn Jónsson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Arnar Freyr Arnarsson 1, Janus Daði Smárason 1, Óðinn Þór Ríkharðsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 7, 28% – Björgvin Páll Gústavsson 1, 20%.
Handbolti.is er í Kristianstad og fylgdist með leiknum í textalýsingu.






