Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður í handknattleik var sterklega orðaður við pólska meistaraliðið Orlen Wisła Płock í frétt pólska fjölmiðilsins TVP SPORT í gær. TVP SPORT segist hafa heimildir fyrir því að forráðamenn Płock hafi augastað á Viktori Gísla til að brúa bil þangað til norski landsliðsmarkvörðurinn Thorbjørn Bergerud kemur til félagsins að ári liðnu frá Kolstad í Noregi.
Samningsbundinn Nantes
Viktor Gísli er samningsbundinn Nantes næsta árið og er þar á ofan að jafna sig af olnbogameiðslum. Hann hefur þráfaldlega verið orðaður við flutning til Barcelona sumarið 2025 í framhaldi af brottför spænska landsliðsmarkvarðarins Gonzalo Pérez de Vargas til THW Kiel í Þýskalandi. Samningur Vargas við Kiel er í höfn.
Einn ungur og annar þrautreyndur
Orlen Wisła Płock hefur þegar tvo markverði á samningi, annarsvegar hinn gamalreynda Króata, Mirko Alilovic og hinsvegar ungan Pólverja Marcel Jastrzębski. Alilovic, sem er 38 ára gamall og hefur marga fjöruna sopið, er samningsbundinn í ár til viðbótar. Óvíst er að hann verði látinn taka pokann sinn í sumar þar sem hann var hetja Orlen Wisła Płock í vítakeppni úrslitaleiksins við Industria Kielce á dögunum. Hinsvegar er ljóst að forráðamönnum pólska meistaraliðsins þykir markvarsla liðsins á nýliðinni leiktíð ekki hafa verið viðunandi. Þeir ætla sér í undanúrslit Meistaradeildar á næstu leiktíð og telja að betri markvarsla geti riðið baggamuninn í þeim fyrirætlunum.
Hafa styrkt sveit sína
Hermt er einnig í frétt TVP SPORT að Orlen Wisła Płock hafi þegar tryggt sér starfskrafta Slóvenans Mitija Janc og Frakkans Melvyn Richardson fyrir næstu leiktíð. Með Viktor Gísla til viðbótar er það mat þeirra sem stýra pólska meistaraliðinu að þeir séu komnir með nægilega sterkt lið til að vinna pólska meistaratitilinn aftur á næstu leiktíð auk þess að vera með enn öflugra lið í Meistaradeild Evrópu.
Orlen Wisła Płock féll úr leik í 16-liða úrslitum Meistaradeildar í vor.
Auk fregnar TVP SPORT hefur verið ýjað að vistaskiptum Viktors Gísla instagram-síðunni rthandball.