Pólska landsliðið í handknattleik karla býr sig undir Evrópumótið í handknattleik í smábænum Cetniewo við Eystrasaltið. Segja má að pólska liðið sé þar í felum. Auk þess að æfa daglega undir stjórn Spánverjans Jota Gonzalez frá 2. janúar leikur liðið tvo vináttuleiki við Serba fyrir luktum dyrum 10. og 11. janúar. Leikirnir verða ekki teknir upp og þeim þaðan af síður sjónvarpað, eftir því fram kemur á heimasíðu pólska handknattleikssambandsins. Þess er getið að úrslit leikjanna verði birt opinberlega.
Pólska landsliðið verður andstæðingur íslenska landsliðsins í annarri umferð riðlakeppni Evrópumótsins sunnudaginn 18. janúar.
Gonzalez landsliðsþjálfari er með 20 leikmenn við æfingar. Hann er sagður ætla að fækka um tvo í hópnum 12. janúar. Síðasta æfingin í Cetniewo verður þriðjudaginn 13. janúar.
Pólska landsliðið hefur ekki náð að sýna sitt rétta andlit á undanförnum stórmótum. Erjur voru innan hópsins sem náðu hámarki á HM í fyrra þegar liðið olli vonbrigðum og hafnaði í keppninni um forsetabikarinn. Gonzalez var ráðinn landsliðsþjálfari í mars. Hann á að stokka upp spilin en sagt er að hann hafi nánast byrjað á upphafsreit á fyrstu æfingum í haust.
Pólska landsliðið hefur verið valið – mætir Íslandi 18. janúar
EM karla 2026 – leikdagar, leikstaðir, leiktímar




