Portúgal varð fyrsta liðið úr F-riðli til þess að tryggja sér sæti í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik karla í kvöld með öruggum 13 marka sigri á Marokkó, 33:20, í New Capital Sport senter íþróttahöllinni í Kaíró. Staðan var jöfn í hálfleik, 12:12, eftir fjörugan leik. Portúgalska liðið tók síðan leikinn yfir í síðari hálfleik. Portúgal hefur þar með fjögur stig eftir tvo leiki en Marokkó er án stiga eftir tvær tapaðar viðureignir.
Leikmenn Marokkó skutu leikmönnum Portúgal skelk í bringu með leik sínum framan af fyrri hálfleik og var munurinn lengi vel þrjú til fimm mörk. Portúgalska liðið jafnaði sig jafnt og þétt þegar á leið fyrri hálfleikinn og mistökunum tók að fjölga í fjörmiklum leik Marokkómanna sem voru oft og tíðum mestu klaufar.
Strax í byrjun seinni hálfleiks var ljóst að Marokkómenn áttu ekki fleiri ása upp í erminni. Þeir fóru illa að ráði sínu hvað eftir annað og Portúgalir léku sér að þeim eins og köttur að mús.
Línumaðurinn sterkbyggði Nabil Slassi vakti athygli og getur verið erfiður viðureignar en nokkuð var lagt upp úr að þefa hann uppi. Einnig var markvörður Marokkó, Yassine Idrissi, góður að þessu sinni eins og gegn Alsír. Hinsvegar er vörnin sem hann hefur og hafði fyrir framan sig afar brothætt og því stóð Idrissi oft einn og mátti ekki við margnum.