Portúgal verður efst í F-riðli og fer áfram í milliriðil með fjögur stig. Þessi staðreynd lá fyrir nú í kvöld eftir öruggan sigur portúgalska landsliðsins á landsliði Alsír í fyrri leik F-riðils heimsmeistaramótsins, 26:18. Portúgal var með fimm marka forskot í hálfleik, 14:9.
Alsíringar náðu aldrei að vefjast sérstaklega fyrir Portúgölum í þessum leik. Rétt kannski á upphafsmínútunum en til þess að eiga möguleika hefði liðið þurft að leika mun betur en talsvert var um einföld mistök og hreinan klaufaksap.
Frakkar unnu Svisslendinga, 25:24, í E-riðli og hafna í efsta sæti með fullt hús stiga en þrjú efstu liðin úr F-riðli fara í riðil með þremur efstu liðum E-riðils í milliriðlakeppninni. Sviss verður væntanlega í þriðja sæti E-riðils. Vinni íslenska landsliðið leikinn við Marokkó í kvöld eða gerir jafntefli og nær þar með öðru sæti riðilsins mætast Ísland og Sviss í fyrstu umferð milliriðlakeppninnar á miðvikudagskvöld. Noregur verður að öllum líkindum þriðji andstæðingurinn í milliriðlakeppninni. Norska landsliðið mætir Austurríki í kvöld. Austurríska liðið hefur tapað báðum leikjum sínum í keppninni en Norðmenn unnið annan leik sinn en tapað hinum.