-Auglýsing-

Prófsteinn á stöðu okkar um þessar mundir

- Auglýsing -

„Nú er loksins komið að alvöru leikjum og þeir eru prófsteinn á það hvar liðið stendur um þessar mundir eftir miklar breytingar á leikmannahópnum,“ segir Andrea Jacobsen landsliðskona í handknattleik en hún verður í eldlínunni með landsliðinu í kvöld þegar það mætir færeyska landsliðinu í 1. umferð undankeppni Evrópumóts kvenna 2026. Leikurinn við Færeyinga verður í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal og hefst klukkan 19.30.

Spurning hvenær allt smellur

„Við erum með mjög flottan hóp leikmanna sem gefur allt í þetta og vill ná árangri. Þar af leiðandi er bara spurningin hvenær allt smellur saman hjá okkur,“ segir Andrea ennfremur en hún hefur leikið afar vel með þýska liðinu Blomberg-Lippe á leiktíðinni og þar af leiðandi komin í hóp kjölfestu leikmanna landsliðsins.

Miðasala á landsleik Íslands og Færeyja.

65. landsleikurinn í kvöld

Andrea leikur í kvöld sinn 65. landsleik og 66. landsleikinn í Portúgal á sunnudaginn þegar landsliðið leikur síðari viðureignina í fyrsta fasa af þremur í undankeppni EM. Leikirnir skipta einnig miklu máli í undirbúningi íslenska landsliðsins fyrir þátttöku á heimsmeistaramótinu sem hefst 26. nóvember.

Íslenska landsliðið lék í Lambhagahöllinni 26. október á síðasta ári vináttuleik við pólska landsliðið og vann með sex marka mun, 30:24. 

Mikilvægt að vinna heimaleikina

„Þessir leikir eru hluti í okkar vinnu við að skapa nýtt landslið. Með hverjum leik sem líður þá fáum við meiri upplýsingar til þess að vinna með,“ segir Andrea sem undirstrikar að mikilvægt sé að vinna heimaleiki í undankeppni stórmóta til þess að eiga meiri möguleika á að komast áfram og í lokakeppnina.

„Færeyingar hafa verið lítið breytt í síðustu ár og við höfum mætt þeim nokkrum sinnum og gengið ágætlega. Við vonumst til þess að halda áfram að vinna,“ segir Andrea Jacobsen bjartsýn og glöð í bragði er handbolti.is hitti hana að máli í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -