Christian Prokop hefur verið leystur frá störfum hjá þýska handknattleiksliðinu Hannover-Burgdorf samkvæmt samkomulagi milli hans og félagsins. Til stóð að Prokop hætti í lok leiktíðar í vor og var ákveðið að Spánverjinn Juan Carlos Pastor tæki við í sumar. Nú mun hins vegar standa til að Pastor komi til starfa á næstu dögum og búi Hannover-Burgdorf-liðið undir síðari hluta keppnistímabilsins.
Flautað verður til leiks í þýsku 1. deildinni í byrjun febrúar, að loknu Evrópumóti landsliða.
Heiðmar Felixson var aðstoðarmaður Prokop síðustu fimm ár. Hann mun halda sínu striki hjá liðinu þrátt fyrir breytingarnar og starfa við hlið Pastors.
Prokop, sem var landsliðsþjálfari Þýskalands frá 2016 til 2020, hefur verið fjarverandi í nokkrum leikjum á leiktíðinni vegna veikinda. Hvort sem það er því að kenna eða af öðrum ástæðum þá hefur árangur Hannover-Burgdorf-liðsins ekki verið eins góður í vetur og undanfarin tvö ár þegar liðið hefur verið í toppbaráttu. Reyndar rétti liðið aðeins úr kútnum á síðustu vikum ársins eftir slaka byrjun í haust.




