Handknattleiksmaðurinn Aron Dagur Pálsson rær á ný mið eftir núverandi leiktíð og tveggja ára veru hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Alingsås. Aron Dagur staðfesti það við handbolta.is í dag að hann flytjist um set í sumar.
„Næstu skref eru ennþá óljós. Vonandi dettur eitthvað inn á næstu vikum,“ sagði Aron Dagur við handbolta.is.
Aron Dagur kom til Alingsås frá Stjörnunni sumarið 2019 en áður en hann gekk til liðs við Stjörnuna hafði hann leikið upp yngri flokka og í meistaraflokki Gróttu.
Aron Dagur skoraði 68 mörk í 27 leikjum með Alingsås í sænsku úrvalsdeildinni sem lauk á dögunum. Auk þess átti hann 76 stoðsendingar. Alingsås hafnaði í fimmta sæti úrvalsdeildar og mætir Skövde í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar um sænska meistaratitilinn. Fyrsta viðureignin verður í Skövde á fimmtudagskvöld.