- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ragnar kveður – einn fjölhæfasti skotmaður Íslands!

Ragnar Jónsson bjó yfir miklum hraða og stökkkrafti. Hér skorar hann mark í leik gegn Sviss á HM í Vestur-Þýskalandi 1961.
- Auglýsing -

 Ragnar Jósef Jónsson, bakarameistari í Hafnarfirði, lést 9. janúar 2025, er einn af litríkustu handknattleiksmönnum Íslands og margfaldur Íslandsmeistari með hinu sigursæla liði FH á árunum 1956 til 1966.

Ragnar fæddist í Hafnarfirði 4. janúar 1937 og var nýorðinn 88 ára er hann lést. Hann var mjög fjölhæfur íþróttamaður, en handknattleikur var hans aðal íþróttagrein, sem hann byrjaði að leika með meistaraflokki 16 ára 1953. Ragnar varð sjö sinnum Íslandsmeistari með FH (1956, 1957, 1959, 1960, 1961, 1965, 1966) og tíu ár í röð Íslandsmeistari utanhúss, síðast 1965. Hann lék knattspyrnu með FH og ÍBH, varð Íslandsmeistari og Reykjavíkurmeistari með ÍR í körfuknattleik 1960. Þá var hann frjálsíþróttamaður góður og einnig fótaði hann sig á fjölunum með Leikfélagi Hafnarfjarðar í Bæjarbíó.

 Íslenska kandsliðið er nú að hefja keppni á HM í Króatíu, Noregi og Danmörku. Ragnar tók þátt í fyrstu þremur heimsmeistarakeppnum sem Ísland var með; 1958 í Austur-Þýskalandi, þar sem Ragnar lék sína fyrstu landsleiki, 1961 í Vestur-Þýskalandi og 1964 í Tékkóslóvakíu. 

Ragnar Jónsson á ferðinni með knöttinn, eftir hraðaupphlaup.

Ragnar myndaður bak og fyrir

 Sovétmenn tóku ekki þátt í HM 1958, en þeir sendu hóp manna til að fylgjast með og læra. Sovétmenn höfðu samband við Ragnar og óskuðu eftir að fá að kvikmynda þrjár gerðir af smuguskotum Ragnars, sem hann var frægur fyrir. Raggi varð við ósk þeirra og voru skot hans kvikmynduð bak og fyrir á æfingu. Sovétmenn sýndu gamalkunna skottakta er þeir léku með á HM í Tékkóslóvakíu 1964. Þeir höfðu greinilega tekið upp marga skottakta Ragnars.

 Guðjón Jónsson, Fram, sem háði margar rimmur við Ragnar, þegar FH og Fram börðust um meistaratitilinn á árunum 1961-1967, sagði pistlahöfundi þegar hann ritaði bókina „Strákarnir okkar“ 1993, það væri hans skoðun að Ragnar sé besti handknattleiksmaðurinn sem Ísland hefur átt. „Ragnar var geysileg skytta og gat unnið leiki upp á eigin spýtur – skottækni hans var geysilega góð; hann gat skotið frá ökkla upp á öxl. Ég hef viljað sjá Ragnar leika gegn flötum vörnum eins og leikið er í dag. Það hafði verið fallbyssufóður fyrir hann. Skottækni hans var svo mikil, að markverðir hefðu ekki séð knöttinn fyrr en of seint.“

 * Þegar Ragnar lék á HM 1958 var bróðir hans, Bergþór, í liðinu og voru þeir fyrstu bræðurnir til að leika saman í landsliðinu.

 Skytta og markvörður á HM 1958

 * Þá varð Ragnar fyrstur til að leika sem útispilari og markvörður í sama landsleiknum; gegn Ungverjum á HM. Þegar Guðjón Ólafsson, KR, var rekinn af velli fyrir að sparka knettinum upp í stúku, fór Ragnar í markið og hélt hreinu á meðan Guðjón var utan vallar; varði fjögur skot. Ragnar, sem hafði leikið í marki á yngri árum, var skráður sem þriðji markvörður landsliðsins á HM, ef eitthvað óvænt kæmi upp á.

Þjálfarinn lék með gegn Svíum

 Ragnar lék 28 landsleiki (ellefu sinnum sem fyrirliði) og skoraði 99 mörk á árunum 1958-1967. Raggi afrekaði það 1967 er hann var landsliðsþjálfari ásamt Karli G. Benediktssyni og Reyni Ólafssyni, að leika tvo landsleiki gegn Svíum í Laugardalshöllinni. Hann var þá fyrsti þjálfarinn til að leika landsleik; undir sinni stjórn. Ragnar skoraði þá eitt mark í jafnteflisleik, 21:21.

Bræðurnir Ragnar og Bergþór Jónssynir léku saman á HM í Austur-Þýskalandi 1958.

Gleymi aldrei Bratislava 1964

 Raggi sagði eitt sinn við pistlahöfund, að tveir af eftirminnilegustu landsleikjum hans, væru jafnteflisleikurinn gegn Tékkum í Stuttgart á HM 1961, 15:15, og sigurleikurinn gegn Svíum í Bratislava á HM 1964, 12:10. Ragnar var mjög góður í þessum tveimur leikjum.

 „Ég gleymi aldrei lokakaflanum er Svíar vou tveimur fleiri inni á vellinum. Ég fékk það hlutverk að einleika með knöttinn, með nokkra Svía á hælunum.“ Raggi fór fram og aftur um völlinn með knöttinn, en við hlið hans voru leikmenn sem gætu tekið við knettinum ef Ragnar kæmist í þröng. „Ég hef aldrei verið eins þreyttur eftir neinn leik. Það tók mjög mikið á þegar við vorum tveimur færri inn á. Ég var gjörsamlega búinn og sagði þá við Sigurð Einarsson, sem var þá inná; „Nú verð ég að fara útaf til að hvíla mig.“ „Ertu ræfill…,!?“ öskraði Sigurður þá til mín, en hann var þekktur fyrir sitt mikla keppnisskap.

 „Ég hugsaði þá með mér að ég skyldi sýna honum að ég ætti dálítið eftir og hélt áfram á fullum krafti. Það sem mér þótti skemmtilegast, var að ég gat baunað á Sigurð sömu glósunni og þegar hann lét mig fá það óþvegið, stuttu síðar – þegar Sigurður var að springa.“

 * Ragnar var engin viðvaningur við að rekja knöttinn. Hann þekkti þær hreyfingar vel, enda snjall körfuknattleiksmaður  með ÍR.

Geysileg hittni og skotharka

 Sigurður, línumaður úr Fram, hafði þetta um Ragnar að segja: „Ragnar er tvímælalaust mesta langskyttan, sem ég hef leikið gegn. Skotharka hans var geysileg og hittnin frábær, og við það bættist að hann var eldsnöggur og fljótur að skjóta, þegar hann fékk knöttinn“, sagði Sigurður sem er einn besti vamarmaður sem Ísland hefur átt. “Ragnar gat skorað úr hvaða stöðu, sem hann vildi og var með mjög fjölbreyttan skotstíl. Hann skoraði ekki með uppstökkum – heldur kom hann á fleygiferð að vörninni og skaut snöggum hnitmiðuðum skotum. Ragnar er ein allrabesta og fjölhæfasta skytta, sem íslenskur handknattleikur hefur átt.”

 Þess má geta að sonur Ragnars, Jón Erling, fetaði í fótspor pabba síns. Hann varð Íslandsmeistari með FH í handknattleik í með Fram í knattspyrnu.

 Útför Ragnars Jósefs fer fram fá Fríkirkjunni Hafnarfirði þriðjudaginn 21. janúar klukkan 13.00.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -