Ragnheiður Júlíusdóttir er markadrottning Olísdeildar á þessu keppnistímabili. Hún skoraði 121 mark í 14 leikjum Fram í deildinni en hún missti ekki úr leik. Ragnheiður skoraði að jafnaði 8,6 mörk í leik og alls 38 úr vítaköstum.
„Ég er þokkalega sátt með mína frammistöðu miðað við hvernig þetta tímabil hefur verið. En ef ég hugsa um síðasta tímabil til samanburðar þá finnst mér ég hafa verið í betra leikformi þá heldur en núna og held ég að það sé sökum covid, enda færri leikir spilaðir. Ég er bara fegin að hafa klárað deildina þrátt fyrir að hafa ekki náð markmiðinu, deildarmeistaratitlinum,“ sagði Ragnheiður við handbolta.is í dag.
Þetta er í annað sinn sem Ragnheiður skorar flest mörk í Olísdeildinni. Hún var einnig markahæst leiktíðina 2017/2018 með 147 mörk í 21 leik. Spurð hvort það sé viðbótarmarkmið hennar á hverju tímabili að verða markahæst auk þess að vinna meistaratitla með Fram segir Ragnheiður svo ekki vera.
„Ég viðurkenni að það er aldrei markmið hjá mér að verða markahæst. Ég hugsa meira um nýtinguna í hverjum leik. Ég tek mörg skot í leik og finnst því nýtingin skipta miklu máli. En jú mér hefur alltaf fundist gaman að skora mörk og því er þetta ekki leiðinlegur titill að fá, en hefur aldrei verið markmið hjá mér,“ segir Ragnheiður Júlíusdóttir, leikmaður Fram og landsliðsins og markahæsti leikmaður Olísdeildar kvenna 2021.
Aðeins tvær konur skoruðu yfir 100 mörk í deildinni á keppnistímabilinu.
Nafn, félag, fjöldi marka/vítaköst, fjöldi leikja:
Ragnheiður Júlíusdóttir, Fram, 121/38 – 14.
Eva Björk Davíðsdóttir, Stjörnunni, 101/43 – 14.
Lovísa Thompson, Val, 90/7 – 14.
Rut Arnfjörð Jónsdóttir, KA/Þór, 87/38 – 14.
Helena Rut Örvarsdóttir, Stjörnunni, 81/0 – 14.
Sara Odden, Haukum, 75/0 – 14.
Sigríður Hauksdóttir, HK, 69/13 – 14.
Berta Rut Harðardóttir, Haukum, 64/38 – 14.
Ásdís Guðmundsdóttir, KA/Þór, 62/21 – 14.
Sunna Jónsdóttir, ÍBV, 59/0 – 14.
Birna Berg Haraldsdóttir, ÍBV, 58/1 – 13.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Val, 56/20 – 12.
Lena Margrét Valdimarsdóttir, Fram, 56/9 – 14.
Ásta Björt Júlíusdóttir, ÍBV, 55/36 – 14.
Karólína Bæhrenz Lárudóttir, Fram, 53/0 – 12.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, ÍBV, 51/0 – 13.
Aldís Ásta Heimisdóttir, KA/Þór, 51/0 – 14.
Rakel Sara Elvarsdóttir, KA/Þór, 51/0 – 14.
Emilía Ósk Steinarsdóttir, FH, 50/15 – 14.