- Auglýsing -
Vilius Rašimas markvörður handknattleiksliðs Selfoss og landsliðs Litáen var á dögunum sæmdur nafnbótinni heiðurssendiherra heimabæjar síns, Tauragė í Litáen. Sunnlenska.is segir frá þessu og vitnar í Facebook-síðu bæjarstjórans í Tauragė, Dovydas Kaminskas.
Í samtali við sunnlenska.is segist Rašimas vera stoltur af heiðrinum sem heimabærinn sýnir honum. Hlutverk sendiherranna sé að halda merki Tauragės og Litháen á lofti.
„Þetta er verkefni sem komið var á laggirnar í heimabænum mínum til þess að tengjast fólki um allan heim sem er frá Tauragė. Verkefni mitt er að vera fulltrúi bæjarins og þetta hjálpar mér einnig til þess að tengjast bænum mínum aftur,” er haft eftir Rašimas í sunnlenska.
Rašimas hefur staðið í marki Selfoss undanfarin tvö ár við góðan orðstír auk þess að vera drengur góður.
Í Tauragė búa á þriðja tug þúsunda íbúa. Bærinn er ekki fjarri Eystrasaltsströnd Litáen og rétt norðan við Kalíningrad-hérað sem tilheyrir Rússlandi, en liggur milli Litáens og Póllands án þess að eiga landamæri að Rússlandi.
- Auglýsing -