Vilius Rasimas markvörður fór á kostum í marki Hauka þegar liðið vann Stjörnuna, 29:23, í Olísdeild karla í handknattleik í Hekluhöllinni í Garðabæ í kvöld í upphafsleik 18. umferðar. Rasimas varði 19 skot og skoraði auk þess eitt mark nærri leikslokum og lagði grunn að öruggum sigri Hauka sem fara með sigurbros á vör áleiðis til Slóveníu í rauðabítið í fyrramálið. Á laugardaginn mæta Haukar RK Jeruzalem Ormoz öðru sinni í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar.
Staðan var 14:12 fyrir Hauka að loknum fyrri hálfleik.
Haukar eru áfram í 5. sæti Olísdeildar með 22 stig, fjórum stigum á eftir Stjörnunni sem situr í næsta sæti á eftir.
Stjarnan byrjaði leikinn afar vel og var með fjögurra marka forskot, 7:3, eftir nærri stundarfjórðungsleik þegar Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka tók leikhlé. Lagði hann á ráðin með sínum mönnum. Tókst svo vel til að nærri sjö mínútum síðar voru Haukar komnir tveimur mörkum yfir, 10:8. Það sem eftir var leiksins voru Haukar með tögl og hagldir í viðureigninni. Munaði þar ekki síst um stórleik Rasimas.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Stjörnunnar: Tandri Már Konráðsson 5/4, Ísak Logi Einarsson 5, Hans Jörgen Ólafsson 4, Jóel Bernburg 3, Daníel Karl Gunnarsson 2, Sveinn Andri Sveinsson 1, Pétur Árni Hauksson 1, Benedikt Marinó Herdísarson 1, Jóhannes Bjørgvin 1.
Varin skot: Sigurður Dan Óskarsson 8, 32% – Adam Thorstensen 31,3%.
Mörk Hauka: Össur Haraldsson 6, Hergeir Grímsson 5, Geir Guðmundsson 4, Þráinn Orri Jónsson 3, Adam Haukur Baumruk 3, Hinrik Hugi Heiðarsson 2, Andri Fannar Elísson 2/1, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 2, Birkir Snær Steinsson 1, Vilius Rasimas 1.
Varin skot: Vilius Rasimas 19, 45,2% – Aron Rafn Eðvarðsson 1/1, 50%.
Tölfræði HBStatz.