- Auglýsing -
- Auglýsing -

Reglur um keppnisbuxur kvenna í strandhandbolta rýmkaðar

Norska kvennalandsliðið í strandhandknattleik í buxum umdeildu sem þær voru sektaðar fyrir að klæðast í kappleikjum. Mynd/FB-síða norska handknattleikssambandsins
- Auglýsing -

Segja má að þótt stjórnendur Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, séu umdeildir, ekki síst forsetinn, þá er þeim þó ekki alls varnað. Nýverið voru rýmkaðar reglur um keppnisbuxur kvenna í strandhandbolta. Með breytingunni þá er konum heimilt að klæðast stuttbuxum í leikjum ef þær kjósa svo. Fram til þessa hafa keppnisbuxur kvenna í þessari sívaxandi íþrótt verið svipaðar bikiníbuxum.


Talsvert veður var vegna keppnisbuxna á Evrópumeistaramótinu sem haldið var Búlgaríu í sumar. M.a. neitaði norska kvennalandsliðið að leika í bikiníbuxum og klæddist þess í stað stuttbuxum sem náðu aðeins niður á lærin. Fór svo að Handknattleikssamband Evrópu, EHF, sektaði norska landsliðið fyrir brot á reglum um keppnisbúninga.

Enn meira fjaðrafok var í kjölfarið á sektaruppkvaðningunni og var reglunum harðlega mótmælt. Blandaði bandaríska söngkonan Pink sér m.a. í umræðuna og tók málstað norsku kvennanna. Bauðst Pink til þess að greiða sektina sem var 1.500 evrur, liðlega 225.000 kr.


EHF sagðist einfaldlega vera að framfylgja reglum Alþjóðasambandsins en mörgum þótti sérstakt að EHF gæti ekki séð í gegnum fingur sér í þessu máli.


Búninganefnd IHF ákvað semsagt að taka við boltanum og rýmka reglurnar þannig að konur geta valið hvort þær leika í stuttbuxum eða bikiníbuxum í strandhandbolta.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -