„Ég reiknaði ekki með því að vera valin í landsliðið að þessu sinni en ég neita því ekki að það er rosalega gaman að vera komin í liðið aftur,“ sagði Andrea Jacobsen, landsliðskona í handknattleik og leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Kristianstad þegar handbolti.is hitti hana að máli. Andrea er í landsliðinu sem mætir Slóveníu í umspilsleikjum fyrir HM ytra á morgun og á Íslandi á miðvikudagskvöld.
Andrea sleit krossband í hné í febrúar í fyrra og var rúmt ár frá keppni af þeim sökum. Hún náði fimm síðustu leikjum Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni áður en liðið féll úr keppni í átta liða úrslitum fyrir um hálfum mánuði.
„Ég hlakka mjög til landsleikjanna eftir að hafa náð að vinna vel í mínum málum síðustu vikur og mánuði auk fimm leikja áður en ég kom heim til Íslands skömmu fyrir páska,“ sagði Andrea sem var í nokkurra daga sóttkví áður en hún fékk heimild til þess að mæta á fyrstu æfinguna með landsliðinu.
„Ég held að við eigum möguleika gegn Slóveníu en þetta verður erfitt. Slóvenska liðið hefur á að skipa mjög sterkum skyttum og við verðum að vera mjög samstilltar í vörninni og keyra aðeins upp hraðann og nýta okkur það að Slóvenar eru þyngri. Um leið verðum við að leika af skynsemi,“ sagði Andrea.
„Ef við náum góðum úrslitum í fyrri leiknum þá getum við átt möguleika að komast áfram. Líkurnar eru kannski ekki með okkur en við verðum að hafa trú á okkar getu. Þá er allt mögulegt,“ sagði Andrea Jacobsen, landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is.
Viðureign Íslands og Slóveníu hefst klukkan 15.30 í morgun, laugardag, og verður bein útsending frá leiknum á RÚV.