Óðinn Þór Ríkharðsson reimar vart á sig skóna orðið fyrir minna en 10 mörk í leik. Sú er að minnsta kosti staðreyndin eftir leik dagsins þegar lið hans Kadetten Schaffhausen vann STSV St. Otmar St. Gallen með þriggja marka mun í St Gallen, 32:29.
Óðinn Þór skoraði 10 mörk að þessu sinni. Átta markanna skoraði hann úr vítaköstum og var með 100% nýtingu. Eitt skot geigaði hjá pilti í 11 tilraunum sem telst hreint framúrskarandi árangur. Óðni var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur.
Kadetten Schaffhausen hefur þar með unnið sér inn þrjú stig í tveimur fyrstu leikjum svissnesku A-deildarinnar í handknattleik.
Óðinn Þór heldur þar með uppteknum hætti frá síðasta keppnistímabili þegar hann skoraði 7,7 mörk að meðaltali í hverjum einasta leik allt tímabilið. Fyrir vikið var hann markahæsti handknattleiksmaður í Evrópu, þegar aðeins er litið til meðaltals eins og handbolti.is sagði frá á dögunum og lesa má um í fréttinni hér fyrir neðan.