Ekkert verður úr því að Reykjavíkurfélögin Valur og Fram mætist í Olísdeild kvenna í Orighöllinni annað kvöld eins til stóð. Mótanefnd HSÍ hefur frestað leiknum vegna smita kórónuveiru. Þetta er í annað sinn á nokkrum dögum sem viðureign liðanna er frestað en þau eru í tveimur efstu sætum Olísdeildar.
Til viðbótar hefur fyrirhuguðum leik ÍBV og Aftureldingar sem átti að fara fram í Vestmannaeyjum á næsta laugardag verið frestað um óákveðinn tíma. Ekki er kórónuveirunni um að kenna heldur stendur fyrir dyrum hjá ÍBV-liðinu að leika í Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik um næstu helgi.
ÍBV mætir Costa del Sol Málaga í tvígang ytra á laugardag og sunnudag. Leikirnir eru liður í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar. Vika er síðan handbolti.is sagði frá því að báðir leikir liðanna fari fram á Málaga.
Stöðu og næstu leiki í Olísdeild kvenna má sjá hér.
- Auglýsing -