- Auglýsing -
- Auglýsing -

Reyndum allt til þess að koma böndum á Aron

Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

„Þetta var ekki okkar dagur og því miður okkar slakasti leikur í allri úrslitakeppninni,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar eftir að lið hans tapaði fjórða úrslitaleiknum við FH um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla, 31:27, og sá þar með Aron Pálmarsson og samherja í FH taka við Íslandsbikarnum að leikslokum að Varmá.

Áttum að vinna þriðja leikinn

„Við lékum frábærlega við Val í úrslitakeppninni og síðan þrjá fyrstu leikina við FH. Það voru vonbrigði að koma ekki inn í þennan leik með yfirhöndina, vera 2:1 yfir í stað þess að vera 2:1 undir. Það hefði skipti öllu máli að vinna þriðja leikinn eins og möguleiki var á. Þar með hefðum við náð frumkvæði í rimmunni. Það hefði breytt öllu,“ sagði Gunnar.

Aron er svindlkall

„Í kvöld vorum við bara slakir auk þess sem við réðum alls ekki við Aron [Pálmarsson] . Hann er munurinn á þessum liðum. Aron á bara ekki að vera í deildinni. Hann er hreinlega svindlkall,“ sagði Gunnar léttur í bragði þrátt fyrir tapið.

„Við reyndum allt til þess að koma böndum á Aron. Hann þurfti svo sannarlega að hafa fyrir því að að leysa þær þrautir sem við lögðum fyrir hann.“

Stoltur af liðinu

Gunnar segist vera stoltur af sínu liði þótt herslumuninn hafi vantað upp á að landa þeim stóra. „Við unnum bikarkeppnina í fyrra og urðum í öðru sæti deildinni og í úrslitakeppninni í ár. Auk þess varð Afturelding Íslandsmeistari í 3. flokki. Við erum að stimpla okkur inn sem eitt af toppliðum landsins og þar ætlum við að vera áfram.”

Höfum fyllt í skörðin

Spurður hvort ekki verði miklar breytingar á liðinu fyrir næsta keppnistímabil sagði Gunnar svo vera. „Breytingarnar munu ekki koma í veg fyrir að við verðum með eitt allra besta liðið áfram. Við höfum þegar fyllt í öll skörðin og munum tilkynna um komu fjögurra nýrra leikmanna á næstu dögum. Við ætlum okkur að vera áfram í toppbaráttu og munum vera það,” sagði Gunnar Magnússon þjálfari karlaliðs Aftureldingar í samtali við handbolta.is í kvöld.

Sjá einnig:

Þessum titli fylgir meiri gæsahúð af því að þetta er FH

FH er Íslandsmeistari – 17. Íslandsmeistaratitillinn í karlaflokki

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -