Reynir Þór Stefánsson nýbakaður landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður bikarmeistara Fram er undir smásjá þýska liðsins MT Melsungen. Frá þessu er sagt í SportBild í dag. Þar segir ennfremur að Melsungen sé ekki eitt um að velta Reyni Þór fyrir sér heldur mun danska liðið Skjern einnig vera inn í myndinni.
Handbolti.is sagði frá því í haust að Reynir Þór hafi æft með Gummersbach þegar liðið var hér á landi áður en liðið mætti FH í Evrópudeildinni í október.
Michael Allendorf íþróttastjóri MT Melsungen staðfestir við SportBild að félagið hafi gefið Reyni Þór auga.
Þriggja ára samningur
Frá því segir ennfremur í SportBild að svo kunni að fara að Reyni Þór, sem verður tvítugur í sumar, standi til boða þriggja ára samningur hjá MT Melsungen. Komi til þess að Reynir Þór fari frá Fram í sumar er ljóst að kaupa verður upp samning hans við Fram. Reynir Þór er samningbundinn Fram út leiktíðina 2026.
Í fremstu röð
MT Melsungen er í öðru sæti þýsku 1. deildarinnar um þessar mundir, jafnt Füchse Berlin. Auk þess er liðið komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar.
Arnar Freyr Arnarsson er samningsbuninn MT Melsungen næsta árið en Elvar Örn Jónsson kveður herbúðirnar í sumar og flytur til SC Magdeburg. Elvar Örn kom til Melsungen fyrir fjórum árum frá Skjern sem sagt er renna hýru auga til Reynis Þórs.