Handknattleiksmaðurinn Reynir Þór Stefánsson var í dag valinn íþróttamaður Fram 2025.
Reynir Þór Stefánsson er einn af efnilegri handknattleiksmönnum landsins. Hann er aðeins tvítugur en lauk sl. vor sínu fjórða tímabili með meistaraflokki karla. Í lok tímabilsins stóð liðið uppi sem Íslands- og bikarmeistari.
Reynir spilaði stórt hlutverk í velgengni karlaliðsins, sem varð sem fyrr segir Íslands- og bikarmeistari á árinu.
Þá var hann valinn besti leikmaður Olís-deildarinnar á lokahófi HSÍ sl. sumar auk þess sem hann var valinn sóknarmaður tímabilsins. Þriðju verðlaunin sem komu í hlut Reynis Þórs var Valdimars-bikarinn sem árlega er veittur mikilvægasta leikmanni Olís-deildar karla.
Reynir Þór var einnig valin mikilvægasti leikmaður bikarúrslitahelgarinnar sem og mikilvægasti leikmaður bikarúrslitaeinvígissins. Þannig vann hann í raun öll einstaklingsverðlaun sem hægt var að vinna á síðasta tímabili.
Loks spilaði Reynir Þór sína fyrstu leiki fyrir A-landslið Íslands á árinu, en hann á að baki feril með öllum yngri landsliðum.
Í sumar gekk Reynir Þór svo til liðs við MT Melsungen sem leikur í efstu deild í Þýskalandi og verður spennandi að fylgjast með Reyni í deild þeirra bestu á komandi árum.
Knattspyrnufélagið Fram óskar Reyni innilega til hamingju.






