- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Riðlaskipting forkeppni ÓL liggur fyrir

Sænska landsliðið fagnar sigri á Þjóðverjum í leiknum 3. sæti á EM í gær sem veitti beinan keppnisrétt á Ólympíuleikunum í sumar. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Eftir að Evrópumótinu í handknattleik lauk í Þýskalandi í gær og Afríukeppninni á laugardaginn liggur ljóst fyrir hvaða lið taka þátt í forkeppni Ólympíuleikanna í handknattleik karla. Svíþjóð og Eyptaland tryggðu sér farseðla á Ólympíuleikanna. Svíar sem fulltrúar Evrópumeistaramótsins og Egyptar sem Afríkumeistarar. Sigur Egypta opnaði leið Slóvena í forkeppnina en Slóvenar voru fyrsta varaþjóð í forkeppnina að loknum HM á síðasta ári.

Eins og vonir stóðu til áður en Evrópumótið hófst þá komust tvö landslið í forkeppni ÓL frá EM. Austurríki og Portúgal hrepptu hnossið eftir kapphlaup við íslenska landsliðið og það hollenska eftir að komið var í milliriðla.

Austurríki tekur sæti í riðli tvö með Þýskalandi, Króatíu og Alsír. Það er sá riðill sem íslenska landsliðið hefði tekið sæti í ef fimm marka sigur hefði náðst í síðasta leik milliriðlakeppni EM, svo dæmi sé tekið af þeim möguleikum sem voru fyrir hendi.

Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari Barein tekur þátt í forkeppninni og verður í riðli með Spánverjum, Slóvenum og Brasilíu.

Riðlaskipting í forkeppni ÓL
Riðill 1: Spánn, Slóvenía, Barein, Brasilía.
Riðill 2: Þýskaland, Króatía, Alsír, Austurríki.
Riðill 3: Noregur, Ungverjaland, Portúgal, Túnis.

Forkeppni ÓL fer fram 14. til 17. mars. Spánverjar, Þjóðverjar og Norðmenn eiga fyrsta valrétt á að vera gestgjafar riðlakeppninnar.

Tvö efstu lið hvers riðils hreppa farseðil á Ólympíuleikana sem fara fram í París frá 25. júlí til 11. ágúst. Fyrri hluti handknattleikskeppninnar fer fram í París en síðari hlutinn í Lille.

Þegar hafa landslið sex þjóða tryggt sér þátttökurétt á ÓL:
Frakkland, gestgjafi.
Danmörk, heimsmeistari.
Japan, vann forkeppni Asíu, (Dagur Sigurðsson).
Argentína, vann forkeppni Suður Ameríku.
Egyptaland, Afríkumeistari.
Svíþjóð, frá EM karla 2024.

Forkeppni ÓL í kvennaflokki fer fram 11. til 14. apríl.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -