Þótt enn séu um níu mánuðir þangað til flautað verður til fyrsta leiks á Evrópumeistaramóti karla í handknattleik í Þýskalandi og ekki liggur fullkomlega fyrir hvaða landslið taka þátt hefur sala aðgöngumiða verið með allra besta móti. Ríflega 100 þúsund aðgöngumiðar eru þegar seldir. Þykir það gefa fögur fyrirheit um það sem koma skal.
Þjóðverjar er fremstir í flokki þeirra sem hafa tryggt sér miða á mótið enda margir hverjir afar skipulagðir auk þess sem talsverð eftirvænting ríkir eftir góðan árangur þýska landsliðsins undir stjórn Alfreðs Gíslasonar á HM í janúar. Þýskaland hafnaði í fimmta sæti á mótinu sem var framar vonum margra.
50 þúsund á fyrsta leik
Marga heillar að vera við upphafsleik mótsins sem fram fer á knattspyrnuvellinum í Düsseldorf. Vonir standa til þess að 50 þúsund áhorfendur mæti á leikinn og vitanlega verður þýska landsliðið annað liðið í upphafsleiknum. Stefnir í heimsmet í aðsókn á stakan handboltaleik.
Sprenging eftir 10. maí
Þjóðverjar reikna með að sprenging verði í miðasölu strax eftir að dregið hefur verið í riðla mótsins 10. maí.
Næsta víst er að íslenska landsliðið verður með á EM og mótshaldarar hafa slegið því föstu að fyrstu þrír leikir íslenska landsliðsins, þ.e. í riðlakeppninni, fari fram í ólympíuhöllinni í München, þeirri sömu og íslenska landsliðið lék í riðlakeppni HM fyrir fjórum árum. Þangað flykktust stuðningsmenn íslenska liðsins og vafalaust láta þeir ekki sitt eftir liggja á EM í janúar enda þægilegt að fara með beini flugi til borgarinnar.