- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Ríflega tíundi hver Færeyingur verður á EM

- Auglýsing -

Ríflega tíundi hver Færeyingur fylgir landsliðinu eftir á Evrópumótið í handknattleik karla sem hefst á föstudaginn. Rétt tæplega 6.000 aðgöngumiðar hafa verið seldir til Færeyinga eftir því sem Portal.fo segir frá. Íbúar í Færeyjum eru liðlega 55.000. Þetta jafngildir því að um 40 þúsund Íslendingar væru á leiðinni á EM. Óhætt er að segja að handboltahamur sé runninn á Færeyinga.

Með flugvélum og skipum

Allar flugferðir á milli Vogaflugvallar og Gardemoen eru fyrir löngu uppseldar og virtist um tíma engu máli skipti hversu margar ferðir Atlantic Airways skipulagði. Allar seldust upp eins og heitar lummur. Til þess að mæta eftirspurn eftir ferðum til Óslóar brugðu forráðmenn Norrænu á það ráð að selja í siglingu frá Þórshöfn til Óslóar. Sú ferð seldist einnig upp á skömmum tíma. Norræna mun liggja við kaja í Ósló meðan riðlakeppnin stendur yfir og farþegar eiga svefnstað um borð.

Einhver hluti stuðningsmannahópsins eru Færeyingar sem búa utan heimalandsins.

Fyrsti leikur á föstudaginn

Fyrsti leikur Færeyinga verður í Unity Arena Bærum (Fornebu) í útjaðri Óslóar á föstudaginn gegn landsliði Sviss. Tveimur dögum síðar mæta Færeyingar landsliði Svartfellinga áður en viðureign við Slóvena tekur við þriðjudaginn 20. janúar. Tvö lið komast áfram í milliriðla sem fram fara í Malmö. Ekki er þar með hægt að útiloka að Íslendingar og Færeyingar mætist í milliriðlakeppninni gangi allt að óskum í riðlakeppninni hjá báðum landsliðum.

Færeyingar voru nærri því að komast í milliriðla á EM fyrir tveimur árum þegar um 5.000 stuðningsmenn settu stórskemmtilegan svip á Berlín utan vallar sem innan.

EM 2026.

EM karla 2026 – leikdagar, leikstaðir, leiktímar

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -