Spánverjinnn Valero Rivera hefur á ný tekið við þjálfun karlalandsliðs Katar í handknattleik. Rivera, sem er 72 ára gamall, hætti þjálfun landsliða Katar fyrir tveimur árum, ætlaði sér að rifa seglin, setjast í helgan stein eftir að hafa verið leikmaður og síðar þjálfari i meira en fimm áratugi. Hann stóðst hinsvegar ekki mátið þegar neyðarkall barst frá vinum hans í Katar sem höfðu gefist upp á Veselin Vujovic.
Eintóm vonbrigði
Árangur landsliðs undir stjórn Vujovic hefur verið eintóm vonbrigði fyrir Katara sem nú vonast til að betri tíð með blómum í haga og hinn erna Spánverja við stjórnvölin.
Var í níu ár
Rivera tók landsliði Katar 2014 eftir að hafa gert Spánverja að heimsmeisturum árið áður. Í Katar var Rivera í níu ár og vann Asíumótin hvað eftir annað og stýrði landsliði Katar alla leið í úrslit á HM 2015 á heimavelli og mátti játa sig sigraðann í úrslitaleik við Frakka. Landslið Katar á þeim tíma var uppistöðu til skipað leikmönnum frá Evrópu og Afríku sem yfirgáfu sín landslið í skiptum fyrir gull og græna skóga og langa heita sumardaga.
Er þegar tekinn til starfa
Eftir því sem fregnir herma hefur Rivera þegar hafið störf í Doha. Í nóvember tekur landslið Katar þátt í Samstöðuleikunum í Ríad í Sádi Arabíu. Eftir það tekur Asíumótið við í janúar þar sem farseðlar á HM 2027 verða á boðstólum.
Staldrar sjaldan lengi við
Forverinn Vujovic hefur marga fjöruna sopið á ferli sínum sem þjálfari eftir að hafa verið einn allra besti handknattleiksmaður heims á níunda áratug síðustu aldar. Vujovic hefur hvergi þjálfað til lengdar. Á 30 ára ferli sem þjálfari hefur Vujovic a.m.k. þjálfað 11 félagslið, sum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, og sex landslið.