- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Róbert Örn var hetja nýliðanna – tryggði sigurinn

Pálmi Fannar Sigurðsson steytir hnefann og hvetur félaga sína áfram í leik á Akureyri. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Markvörðurinn Róbert Örn Karlsson var hetja nýliða HK í kvöld þegar hann tryggði liðinu bæði stigi gegn Haukum í Kórnum í kvöld. Hann varði vítakast frá Guðmundi Braga Ástþórssyni eftir að leiktíminn var úti. Vítakast sem Þráinn Orri Jónsson hafði unnið á allra síðustu andartökum viðureignarinnar. Lokatölur í Kórnum, 30:29. Að loknum fyrri hálfleik voru Haukar marki yfir, 15:14, eftir að hafa verið sterkari fyrstu 20 til 25 mínúturnar.


HK náði frumkvæðinu upp úr miðjum síðari hálfleik og komst yfir í fyrsta sinn í leiknum, 24:23. Upp úr því tókst liðinu að ná þriggja marka forskoti, 27:24, 28:25, og 29:26 þegar fimm mínútur voru eftir. Í þeirri stöðu átti HK-liðið þess kost að ná fjögurra marka forskoti en lánaðist ekki að nýta tækifærið.

Vildi ekki skipa inná

Fætur sóknarmanna HK voru orðnar ansi hreint þungar á lokakaflanum. Nánast var um gönguhandbolta að ræða. Sóknirnar voru langar og reyndu mjög á þolrif Hauka.

Boltanum var kastað á milli manna. HK tókst að hanga á forskotinu eins og hundur á roði. „Ég vildi ekki skipta ferskum mönnum inn á í sóknina á síðustu mínútum því þá hefði varnarleikur okkar riðlast. Í vörninni vorum við alveg með Haukana,“ sagði Sebastian Alexandersson þjálfari HK glaður í bragði í leikslok í samtali við handbolta.is.

Haukar átti í mestu vændræðum í sóknarleiknum gegn baráttuglöðum leikmönnum HK sem léku vörnina nokkuð framarlega og eins fast og dómararnir leyfðu.

Léku lausum hala

Sannarlega óvænt úrslit í fyrsta leik í Kórnum. Sigurinn gefur HK byr undir báða vængi en heildarframmistaðan veldur hinsvegar Haukum örugglega vonbrigðum. Þeir voru sterkir framan af, ekki síst héldu þeir aftur af sóknarmönnum HK. Þegar á leið fengu Haukar ekkert við Júlíus Flosason, Hafstein Óla Rocha og Hjört Inga Halldórsson ráðið. Þeir skoruðu hvað eftir annað allt þar til fæturnir voru nærri hættir að bera þá undir lokin. Þá sá Róbert Örn um innsigla sigurinn.

Mörk HK: Hjörtur Ingi Halldórsson 8, Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha 7, Júlíus Flosason 7, Kristján Ottó Hjálmsson 4, Kristján Pétur Barðason 2, Kristófer Ísak Bárðarson 1, Sigurður Jefferson Guarino 1.
Varin skot: Róbert Örn Karlsson 9/1, 32,1% – Sigurjón Guðmundsson 4, 28,6%.

Mörk Hauka: Geir Guðmundsson 9, Guðmundur Bragi Ástþórsson 8/2, Össur Haraldsson 3, Guðmundur Hólmar Helgason 2, Úlfur Gunnar Kjartansson 2, Sigurður Snær Sigurjónsson 1, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1, Ólafur Ægir Ólafsson 1, Þráinn Orri Jónsson 1, Adam Haukur Baumruk 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 10/1, 28,6%.

Leikjdagskrá Olísdeilda.

Handbolti.is var í Kórnum og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -