- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ronaldo verður að fara að lána okkur villuna sína“

Þjálfarateymi ÍBV, Sigurður Bragason og Hilmar Ágúst Björnsson. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Ronaldo verður að fara að lána okkur villuna sína á Madeira,“ sagði Sigurður Bragason þjálfari bikarmeistara ÍBV léttur í bragði þegar handbolti.is leitaði viðbragða hans við þeirri staðreynd að annað árið í röð dróst ÍBV gegn Madeira Andebol SAD frá portúgölsku eyjunni Madeira í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik kvenna í morgun. Eyjaliðin virðast laðast hvort að öðru.


„Það er að minnsta kosti alveg ljóst að ég verð orðinn sleipur í portúgölsku eftir þátttöku okkar í Evrópukeppninni,“ sagði Sigurður en hann er nýkominn frá Porto þar sem ÍBV lék við Colegio de Gaia í 1. umferð keppninnar á síðasta föstudag og laugardag.

Eigum alveg möguleika

„Að öllu gamni slepptu þá er ég í sjálfu sér ekkert óánægður með að mæta Madeira-liðinu. Það er lið sem við eigum alveg möguleika í að vinna. Ég vil frekar mæta sterkum og góðum liðum í Evrópukeppninni en slakari liðum sem við burstum eins og stundum hefur komið fyrir. Við fáum sem lið lítið út úr svoleiðis leikjum,“ sagði Sigurður en kvennalið ÍBV hefur verið mjög duglegt að taka þátt í Evrópukeppni félagsliða á síðustu árum og sýnt mikinn metnað á því sviði.


„Madeiraliðið er á svipuðu stigi og við. Ég er bara spenntur fyrir þessum leikjum. Annað hvort tekst okkur að hefna fyrir tapið í fyrra eða að við föllum út fyrir góðu liði,“ sagði Sigurður sem taldi sennilegast að báðir leikirnir fari annað hvort fram í Vestmannaeyjum eða Madeira.

Annað hvort heima eða að heiman

„Evrópu-Pálmi sér um samskiptin við forsvarsmenn Madeiraliðsins. Ég á frekar von á að annað hvort fari báðir leikir fram hér heima eða að við leikum tvisvar á Madeira eins og við gerðum í fyrra,“ sagði Sigurður. ÍBV tapaði leikjunum á síðasta ári samanlagt, 52:47.

Leikirnir eiga að fara fram 11. og 12. nóvember annars vegar og 18. og 19. nóvember hinsvegar. ÍBV á heimaleikjarétt fyrri leikhelgina.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -