Enn er haldið áfram að þétta raðirnir í íslenska hópnum á Evrópumeistaramótinu í handknattleik karla í Ungverjalandi. Í gær barst liðsstyrkur þegar Rúnar Pálmasson sjúkraþjálfari kom til Búdapest. Hann verður með landsliðinu út mótið og á að létta á álaginu sem nú er á Elís Þór Rafnssyni sem hefur verið eini sjúkraþjálfarinn undanfarna daga.
Jón Birgir Guðmundsson, sjúkraþjálfari, smitaðist af covid á dögunum og er þar af leiðandi ennþá í einangrun. Óvíst er hvenær hann fær grænt ljós til að snúa til starfa.
Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, sagði í gær það nánast lífsnauðsynlegt hafi verið að bæta við sjúkraþjálfara eftir að Jón Birgir smitaðir. Elís Þór, þótt þrekmikill og röskur væri, geti ekki einn staðið undir álaginu dögunum saman með fjölmennan hóp íþróttamanna sem farinn væri að finna verulega fyrir því álagi sem fylgir þátttöku á stórmótum með krefjandi kappleikjum annan hvern dag.
Rúnar er þrautreyndur sjúkraþjálfari og hefur m.a. unnið mikið með knattspyrnulandsliðum Íslands. Til viðbótar er ekki langt síðan hann smitaðist af covid og ætti þar af leiðandi að vera ónæmur fyrir því afbrigði veirunnar sem hefur tröllriðið liðum Evrópumótsins undanfarna daga.