Rúnar Sigtryggsson heldur áfram að þjálfa þýska 2. deildarliðið EHV Aue á nýju ári. Hann staðfesti það við handbolta.is í dag. Rúnar tók tímabundið við þjálfun liðsins í byrjun desember vegna veikinda Stephen Swat aðalþjálfara liðsins.
Swat veiktist alvarlega af kórónuveirunni í nóvember og verður frá vinnu um skeið áfram af þeim sökum. Þegar Rúnar kom til félagsins var óljóst hversu lengi krafta hans yrði óskað við þjálfun liðsins. Auk Swat hafa margir leikmenn liðsins veikst um lengri eða skemmri tíma en veiran stakk sér niður í leikmannahóp liðsins í október og aftur þegar kom fram í nóvember.
„Við gengum frá samkomulagi um að ég kæmi aftur út til liðsins um miðjan janúar og tæki sex vikur til viðbótar,“ sagði Rúnar við handbolta.is en hann var þá nýkominn til landsins.
EHV Aue lék sex leiki undir stjórn Rúnars í desember og vann einn, gerði tvö jafntefli en tapaði þremur og situr í níunda sæti af 19 liðum deildarinnar með 11 stig eftir 11 leiki.