- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Rúnar og Viggó skelltu meisturunum

Rúnar Sigtryggsson einbeittur við hlíðarlínuna í leik með Leipzig. Mynd/Facebooksíða SC DHfK Handball
- Auglýsing -

Þýska liðið SC DHfK Leipzig, sem Rúnar Sigtryggsson þjálfar og Viggó Kristjánsson leikur með, gerði sér lítið fyrir og vann meistara SC Magdeburg í dag í þýsku 1. deildinni í handknattleik, 33:32. Leikið var í QUARTERBACK Immobilien ARENA í Leipzig.

Viggó Kristjánsson fór á kostum í liði Leipzig. Hann var markahæstur með 10 mörk, þar af sex úr vítaköstum. Einnig átti hann fjórar stoðsendingar og var harður í horn að taka í vörninni og varð að sætta sig við að vera vísað einu sinni af leikvelli.


Gísli Þorgeir Kristjánsson lék að vanda afar vel fyrir Magdeburg. Hann skoraði sex mörk og átti fimm stoðsendingar.


Þetta var aðeins þriðji tapleikur Magdeburg í deildinni sem er í fjórða sæti með 31 stig eftir 19 leiki. Magdeburg er sex stigum á eftir Füchse Berlin sem er efst. Magdeburg á tvo leiki inni á Berlínarbúana.

Algjör stakkaskipti

Leipzigliðið, sem var í kjallaranum þegar Rúnar tók við þjálfun þess snemma í nóvember, er nú komið upp í áttunda sæti með 20 stig eftir 20 leiki. Ljóst er að algjör stakkaskipti hafa átt sér stað eftir að Rúnar tók við þjálfuninni auk þess sem Viggó hefur átt hvern stórleikinn á eftir öðrum á sama tíma.


Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Melsungen þegar liðið steinlá í heimsókn sinni til Füchse Berlin, snemma í dag, 35:25. Elvar Örn átti tvær stoðsendingar að auki og var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur.


Arnór Þór Gunnarsson og félagar í Bergischer HC töpuðu á grátlegan hátt fyrir Stuttgart á heimavelli í dag, 26:25. Eftir fjóra og hálfa mínútu án marks í lokin skoraði Daniel Fernandez Jimenez sigurmarkið úr vítakasti eftir að leiktíminn var úti.
Arnór Þór skoraði ekki mark að þessu sinni.

Aftur frestað vegna veikinda

Viðureign GWD Minden, sem Sveinn Jóhannsson leikur, við Teit Örn Einarsson og félagar í Flensburg var frestað.

Leikmannahópur GWD Minden hefur ekki jafnað sig eftir veikindi sem spruttu upp innan hans á dögunum. Þetta var annar leikurinn í röð hjá Mindenliðinu sem slegið er á frest vegna veikindanna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -