Rúnar Kárason skrifaði fyrir stundu undir tveggja ára samning við handknattleiksdeild Fram. Gengur hann til liðs við uppeldisfélagið í sumar þegar tveggja ára samningur hans við ÍBV gengur út. Rúnar staðfestir komu sína á blaðamannafundi sem Fram hélt í hádeginu í dag. Rúnar lék síðast með Fram árið 2009 en hélt eftir það til Þýskalands og síðar Danmerkur.
„Þetta er mitt félag og mér fannst einfaldlega spennandi að koma aftur til baka eftir langa fjarveru,“ sagði Rúnar í samtali við handbolta.is eftir að hann hafði skrifað undir samninginn.
„Ég gaf mér góðan tíma til að gera upp hug minn og hélt einhverjum fleiri kostum opnum á meðan. Eftir að ég ákvað að stíga skrefið er ég mjög sáttur,“ sagði Rúnar sem er fullur eftirvæntingar að koma inn í spennandi leikmannahóp Fram-liðsins og vinna með þjálfurunum Einari Jónssyni og Haraldi Þorvarðarsyni sem hann þekkir vel frá fyrri árum sínum hjá félaginu.
Einar er lærifaðir minn
„Einar er sá þjálfari sem hjálpaði mér hvað mest þegar ég var ungur peyi. Hann var ráðgjafi og lærifaðir, með mig á mörgum skotæfingum.
Nú kem ég reynslunni ríkari til Fram á nýjan leik eftir að hafa skoðað heiminn og get vonandi miðlað af reynslu minni til væntanlegra samherja,“ sagði Rúnar ennfremur og bætir við ákveðin rómantík sé falin í því að koma til baka í sitt gamla félag þótt það búi á öðrum stað í höfuðborginni en þegar hann kvaddi fyrir 14 árum.
„Mér hefur liðið betur með hverju árinu sem ég hef leikið eftir þrítugt og sé ekki fram á að hætta alveg strax. Ég tek samt eitt ár í einu,“ sagði Rúnar Kárason sem lýkur keppnistímabilinu með ÍBV í Vestmannaeyjum áður en hann klæðist búningi Fram á nýjan leik.
12 ára ferill ytra
Rúnar sem er 34 ára gamall lék upp yngri flokka Fram og var í meistaraflokki liðsins fram til 2009 þar til hann flutti til Þýskalands og gekk til liðs við Füchse Berlin og síðan með Bergischer HC, TV Großwallstadt, Rhein-Neckar Löwen og TSV Hannover-Burgdorf þangað til að hann flutti til vesturhluta Jótlands og var liðsmaður danska úrvalsdeildarliðsins Ribe-Esbjerg um þriggja ára skeið.
Rúnar á að baki 100 A-landsleiki og var m.a. markahæsti leikmaður landsliðsins á HM 2017.