- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Rúnar tekur við þjálfun HSG Wetzlar

- Auglýsing -

Rúnar Sigtryggsson hefur verið ráðinn þjálfari þýska handknattleiksliðsins HSG Wetzlar. Hann tekur við liðinu nú þegar eftir að Momir Ilic og aðstoðarmaður hans tóku pokann sinn eftir afleitt gengi liðsins í þýsku deildarkeppninni fram til þessa.


Rúnar fær ærinn starfa hjá Wezlar en liðið er í næst neðsta sæti með fimm stig, eins og Leipzig sem Rúnar þjálfaði frá haustmánuðum 2022 og fram á síðasta sumar.

Samningur Rúnars og HSG Wetzlar er til loka leiktíðarinnar sumarið 2027.

Fyrsti leikur Wetzlar undir stjórn Rúnars verður gegn Füchsen Berlin á sunnudaginn í Max Schmeling Halle í Berlín.

„Ég hef fylgst mjög náið með þýsku úrvalsdeildinni undanfarna mánuði og einnig séð nokkra leiki með HSG Wetzlar. Í liðinu eru klárlega nægir hæfileikar til að halda sæti sínu í deildinni. Þess vegna er ég mjög ánægður með að við skyldum ná saman svona fljótt. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um hvort ég vildi takast á við þetta verkefni. Vissulega er staðan erfið um þessar mundir, en ég er sannfærður um að við munum finna leiðina upp úr fallsæti,“ segir Rúnar Sigtryggsson í tilkynningu félagsins í dag.

Þrautreyndur í Þýskalandi

Rúnar er þrautreyndur í þýska handknattleiknum. Hann hefur þjálfað Eisenach, EHV Aue, Balingen-Weilstetten auk Leipzig eins og áður er getið. Hann tók við Leipzig í nóvember 2022 og reif liðið þá upp úr fallhættu og náði fínum árangri með liðið þótt það hafi ekki nægt stjórnendum félagsins eftir síðustu leiktíð.

Einnig lék Rúnar með þýsku liðunum Göppingen, Wallau Masseheim og Eisenach á árum sínum sem leikmaður.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -